Áhugaverður og skemmtilegur fundur

Haldin var súpu félagsfundur í gærkvöldi í Brekkuseli, mæting var ágæt en þó hefði verið ákaflega gaman að sjá fleiri félagsmenn mæta og taka þátt í umræðum.
Kynntar voru áætlanir félagsins um byggingu aðstöðuhúss á svæðinu sunnan við Brekkusel.
Vorið 2023 var sett saman nefnd á vegum Byggðarráðs sem samanstóð af þeim Óskari Óskarssyni, Herði Finnbogasyni fyrir hönd Skíðafélagsins og þeim Gísla Rúnari Gylfasyni og Frey Antonsyni fyrir hönd sveitarfélagsins. Þeirra hlutverk var að kanna kosti og galla við tvær mismunandi útfærslur af aðstöðuhúsi, annarsvegar stakstæða skemmu sem stæði sunnan og austan við Brekkusel og hinsvegar hús sem fellt verður inn í landið sunnan við Brekkusel og tengt við fyrri húsakost, varð þessi tillaga ofan á, þrátt fyrir hærri byggingakostnað voru kostirnir taldir yfirgnæfandi við að byggja inn í landið og í tengslum við Brekkusel.
 
Húsið verður 350fm að grunnfleti 25m x 14m og mun þakplatan þjóna tilgangi sem sólpallur við Brekkusel og í framtíðinni verður hægt að stækka Brekkusel til suðurs ofan á pallinn, 
 
Þá kom fram á fundinum að mikill áhugi er á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu og var velt upp hugmyndum eins og heilsárs þjónusta með einhvers konar gisti möguleikum, nefnt var til sögunar að áhugi hefði borist um möguleika á hótel lóð, færslu á tjaldsvæðinu hingað uppeftir og smáhýsum í skandinavískum stíl.

Það er svo ótrúlega margt spennandi hér á svæðinu og segja má að hægt sé að sameina Hlíðarfjall, Hálönd, Kjarnaskóg og Hamra í eitt svæði hér á Dalvík með óþrjótandi útivistarmöguleikum, t.d. upplýstri gönguskíðabraut í Bögg, hjólabrautum, SUP brettum, kajak og kanó á tjörninni, gönguleiðir, frisbígolf og svo mætti lengi telja.
 
Einn af stóru ákvörðunar þáttunum varðandi uppbyggingu aðstöðuhússins er sá hversu miklir möguleikar eru á svæðinu og með því að fella húsið vel að landslaginu er ekki verið að skerða útsýni og fegurð svæðisins til framtíðar, heldur styrkja stoðir svæðisins til enn frekari uppbyggingar.