Félagið

Stofnun.

Skíðafélag Dalvíkur er stofnað í nóvember 1972. Það var Jón Halldórsson sem var frumkvöðull að því að reisa skíðalyftu í Böggvisstaðafjalli. Hann fékk í lið með sér áhugasama menn og gengu þeir í hús og söfnuðu fé til að reisa hana. Bæjarfélagið greiddi það sem upp á vantaði. Sú lyfta var reist skammt fyrir ofan bæinn. Í kringum þessa lyftuuppsetningu var stofnað félag og voru stofnendur áhugamenn um skíðaíþróttir á Dalvík. Mikið líf myndaðist í fjallinu eftir að lyftan var byggð, því ekki var mikið annað að viðhafast á þessum tíma.

Framkvæmdir á svæðinu.

En lyftan sem að allir héldu að myndi duga um alla eilífð varð á 3 - 5 árum allt of lítil og því var farið í að reisa aðra lyftu ofar í fjallinu og var sú toglyfta ( sem kölluð er efri lyfta ) tekin í notkun haustið 1976. Vinsældir skíðaiðkanna á Dalvík jukust og setti fólk meiri kröfur. Það sama gerði vinnueftirlit ríkisins. Kröfur um aðbúnað á skíðasvæðum urðu harðari, og varð toglyftan sem var byggð 1972 gerð úrelt. Því var sú lyfta fjarlægð og önnur ný reist. Framkvæmdir við lyftuna hófust að hausti ´85 og var lyftan vígð í janúar ´86. Við þetta stækkaði svæðið um helming og er svæðið núna eitt það fjölbreyttasta á landinu. Samtals eru lyfturnar um 1200 m langar og er fallhæðin í þeim rúmlega 300m. Báðar lyfturnar geta flutt samtals 850 manns á klukkustund. Árið 1981 eignist Skíðafélagið sinn fyrsta snjótroðara sem notaður var til ársins 1995 er annar nýrri var keyptur. Brekkusel, skáli Skíðafélagsins stendur neðst á skíðasvæðinu og var hann tekinn í notkun 1992. Skálinn er á tveimur hæðum og er þar gistirými fyrir allt að 40 manns en hann er alls um 360 m².

Afreksfólk

Skíðafélagið hefur átt marga efnilega skíðamenn. Þar ber fyrstan að nefna Daníel Hilmarsson en hann var fyrsti Dalvíkingurinn sem sló í gegn í alpageinum, hann var einnig einn af stofnendum skíðafélagsins. Björgvin Björgvinsson varð heimsmeistari unglinga í flokki 16 - 17 ára í Frakklandi veturinn 1998. Sveinn Brynjólfsson var valin í Ólympíulið Íslands sem var sent til Nagano í Japan. Þar keppti hann í svigi og var eini Islendingurinn sem skilaði sér í mark. Kristinn Ingi Valsson keppti fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum 2006 í Tórínó í svigi. Einnig hefur félagið átt fjöldan allan af afreksmönnum, sem dreift hafa sér á þau ár sem félagið hefur verið starfrækt.