Lög félagsins

Nafn og heimili

1. grein
Félagið heitir "Skíðafélag Dalvíkur", og heimili þess og varnarþing er á Dalvík.

Markmið félagsins

2. grein 
Tilgangur Skíðafélags Dalvíkur er: 

- Að stuðla að eflingu skíðaíþróttarinnar til ánægju og heilsubótar.
- Að stuðla að eflingu skíðaíþróttarinnar sem keppnisíþróttar.

3. grein 
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að haldin verði námskeið fyrir almenning og bjóða upp á skíðaþjálfun fyrir börn og unglinga. Ennfremur mun félagið vinna að því að byggja upp aðstöðu til skíðaiðkana, svo sem rekstri skíðalyftna og fleira, eitt og sér eða í samvinnu við aðra aðila.

Félagar

4. grein 
Sérhver sá sem áhuga hefur á málefnum félagsins getur gerst meðlimur þess. Allir sem stunda æfingar hjá félaginu eru félagar í Skíðafélagi Dalvíkur og greiða æfingagjöld til félagsins.

Skipulag

5. grein 
Æðsta vald í málefnum félagsins hefur aðalfundur.
Starfssemi félagsins stýrir stjórnin undir forystu formanns.
Innan vébanda félagsins starfa fastanefndir sem kveðið er á um í lögum þessum. 
Félagið getur ráðið framkvæmdarstjóra, endurskoðanda eða bókara ef umfang rekstrar félagsins gefur tilefni til.
Félagið getur gerst aðili að öðrum samtökum.

Aðalfundur

6. grein 
Aðalfundur skal haldinn ár hvert fyrir 31. maí. Fundurinn skal auglýstur með auglýsingu á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins með minnst viku fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1 Skipun fundarstjóra og fundarritara. 
2. Skýrsla formanns. 
3. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins. 
4. Inntaka nýrra félaga. 
5. Félagsgjald ákveðið. 
6. Tillögur: Tillögur eiga að berast formanni minnst fimm dögum fyrir aðalfund. 
7. Kosning stjórnarmanna og fastanefndarfulltrúa.

8. Viðurkenningar/heiðrannir 
9. Önnur mál.

7. grein 
Aukaaðalfund skal halda ef stjórn félagsins óskar þess eða ef þriðjungur eða 25 félagsmenn bera fram skriflega ósk um það við stjórnina. Aukaaðalfundur skal boðaður með sama hætti og aðalfundur sbr. 6. grein.

8. grein 
Kosningarétt á aðalfundi hafa allir félagsmenn sem eru sextán ára og eldri og eigi skulda félagsgjöld til félagsins, þar á meðal þeir sem ganga í félagið og greiða félagsgjald sitt á aðalfundi.

9. grein 
Afl atkvæða ræður úrslitum. Til breytinga á lögum félagsins þarf þó 2/3 atkvæða þeirra félaga sem sækja fundinn sbr. 23. grein.

Félagsstjórn

10.gr

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi og skipa hana 5 aðalmenn kjörnir til tveggja ára. Embættisskipting aðalstjórnar skal vera svohljóðandi: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.

Allir í stjórn skulu kosnir til tveggja ára þannig að þegar ártal er oddatala skal kjósa formann, ritara og meðstjórnanda en þegar ártal er slétt tala skal kjósa varaformann og gjaldkera

Aðalfundur hefur þó heimild til að kjósa einhvern úr stjórninni til annars embættis í stjórn þó kjörtímabili hans sé ekki lokið og skal þá kjósa annan í hans stað, í eitt eða tvö ár eftir því sem við á. Stjórn hefur heimild til þess að skipta með sér verkum þó svo að á aðalfundi sé kosið í embætti.

Komi sú staða upp að stjórnarmaður segir af sér eða hætti í stjórn af persónulegum ástæðum áður en kjörtímabili hans líkur hefur stjórn heimild til þess að finna nýjan stjórnarmann í hans stað fram að næsta aðalfundi.


11. grein 
Formaður kallar saman fundi og sér um fundarefni. Gjaldkeri sér um innheimtu félagsgjalda og annast önnur fjármál félagsins. Ritari bókar það sem á fundum gerist og færir það í gjörðarbók félagsins.

12. grein 
Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða. Verði atkvæði jöfn skal atkvæði formanns ráða úrslitum.

13. grein 
Forfallist formaður eða segi af sér tekur varaformaður sæti hans.

Félagsgjöld

14. grein 
Félagsmenn sem verða 18 ára á árinu og eldri greiða félagsgjöld. Upphæð þess skal ákveðin á aðalfundi að fengnum tillögum stjórnar. Gjalddagi félagsgjalda er 1. október og eindagi 30. október.

15. grein 
Félagsmaður sem skuldar félagsgjöld eftir eindaga missir sjálfkrafa félagsréttindi sín. Félagsmaður öðlast rétt á ný, ef hann greiðir upp skuldir sínar við félagið.

Reikningar

16. grein 
Reikningsár félagsins miðast við almannaksár sbr. 6.gr. laga félagsins. Sjórn skal ætíð tryggja að reikningar séu færðir eftir almennum reglum um reikningsskil og skoðaðir af kjörnum skoðunnarmönnum. Afrit af ársreikningi félagsins skal liggja frammi á aðalfundi og skal hann borinn fram til samþykktar á fundinum.

17. grein 
Allir sjóðir félagsins, að meðtöldum sjóðum fastanefnda svo sem foreldrafélags, skulu vera í vörslu stjórnar.

Fastanefndir

18. grein 
Stjórn Skíðafélags Dalvíkur skal tilnefna minnst einn fulltrúa í foreldraráð, alpagreinanefnd og svæðisnefnd ef hún er starfandi. Stjórn félagsins ákveður hverju sinni hvort svæðisnefnd sé starfandi og velur henni verkefni eftir þörfum. Nefndin hefur ekki fjárráð.
Einnig getur stjórnin skipað í aðrar nefndir ef þörf krefur.

19. grein 
Um allar fastanefndir félagsins gildir að kjörnir og tilnefndir nefndarfulltrúar hafa frjálsar hendur með að velja sér samstarfsaðila.

20. grein

Fastanefndir félagsins skulu fara að fyrirmælum stjórnar varðandi meðferð fjármuna og bókhaldsreglur sbr. 16. grein.

Aðild að samtökum

21. grein 
Félagið getur gerst aðili að öðrum samtökum. Tillaga um aðild skal hljóta sömu málsmeðferð og lagabreytingar.

Lagabreytingar.

22. grein 
Breytingar á lögum þessum má eingöngu gera á aðalfundi eða aukaaðalfundi.
Lagabreytingatillögur skal senda  formanni fyrir 31. mars fyrir næsta aðalfund.
Lagabreytingar skulu birtar félagsmönnum ásamt fundarboði amk viku fyrir aðalfund..
Til lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða.

Félagsslit

23gr:

Ákvörðun um að leysa upp félagið er aðeins hægt að taka á aðalfundi, þar sem a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra félagsmanna eru mættir og þarf til 2/3 atkvæði fundarmanna. Ef aðalfundur, sem sóttur er af færri en 2/3 atkvæðisbærra félagsmanna, samþykkir að leysa félagið með 2/3 atkvæða, skal boðað til nýs aðalfundar. Þar er hægt að taka þá ákvörðun að leysa upp félagið, ef 2/3 fundarmanna samþykkja það.  Ef félagið verður leyst upp skal aðalfundur ákveða hvernig eignum og búnaði þess verður ráðstafað. Eignum skal aðeins ráðstafað til félagasamtaka sem eiga varnarþing í Dalvíkurbyggð eða til Dalvíkurbyggðar. Ekki er heimilt að afhenda einstaklingum eigur félagsins.

 

Gildistökuákvæði

24. grein 
Lög þessi öðlast gildi við lok aðalfundar 27. maí 2020, sem samþykkir þau í samræmi við fyrirmæli áður gildandi laga.