50 ára afmæli

50 ár frá stofnun Skíðafélags Dalvíkur sem var stofnað 11. Nóvember 1972

11. nóvember næstkomandi verða 50 ár frá stofnun Skíðafélags Dalvíkur.                                                   Það var ótrúlegt hugsjónafólk sem tók sig saman og stofnaði félagið í kjölfarið á auknum áhuga á skíðaíþróttinni á Dalvík . Þetta fólk stóð íströngu við að búa félaginu aðstöðu til æfinga og almennrar skíðaiðkunnar í Böggvisstaðafjalli á þessum árum. 

Undirbúningur fyrir afmælið er hafinn og hefur verið ákveðið að bjóða til veislu í Menningarhúsinu Bergi á þessum tímamótum annaðhvort 11. eða 12. nóvember  nk. 

Þá hefur verið ákveðið að skrifa sögu félagsins og gefa út í formi tímarits. Af nægu er að taka þessi 50 ár sem hafa verið farsæl þó að stöku sinnum hafi blásið á móti.  Óskar Þór Halldórsson hefur tekið að sér að vinna verkið og hefur hann síðustu mánuði verið að safna að sér efni. Hann hefur tekið viðtöl við marga sem komu að stofnun félagsins og þá sem hafa starfað með því í mörg ár og er alveg hægt að fullyrða að þar kemur margt skemmtilegt fram.  Óskar ræddi líka við þá aðila sem komu að fyrstu tilraunum með skíðalyftur í Böggvisstaðafjalli á árunum fyrir stofnun félagsins sem var einstakt og merkilegt framtak.

Mikið af myndum verður í blaðinu og er óhætt að segja að margar merkilegar myndir líti dagsins ljós.

Við viljum endilega biðja þá sem eiga myndir sem tengjast félaginu, félagsstarfinu og skíðasvæðinu frá upphafi og eru tilbúnir til þess að láta þær af hendi að senda þær á tölvutæku formi á netfangið skidalvik@gmail.com og taka fram hver tók myndirnar. Gera verður ráð fyrir því að mikið af myndum sé til á pappír og biðjum við þá sem eiga slíkar myndir og geta ekki skannað þær að setja sig í samband við Hönnu Gunnarsdóttur í síma 6609108 á milli 18:00 og 21.00 á kvöldin. 

Það er von okkar að það takist að gera þessum tímamótum góð skil og sem flestir fagni tímamótum.

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur