Aðalfundur Skíðafélags Dalvíkur var 24. maí.

Aðeins ein breyting varð á stjórn félagsins fyrir næsta ár en Sveinn Brynjólfsson gaf ekki kost á sér og kom Daði Valvimarsson inn. Nýja stjórn skipa eftirtaldir. Formarður: Óskar Óskarsson. Vara formaður: Bjarni Valdimarsson. Gjaldkeri: Valdís Guðbrandsdóttir. Ritari: Margret Eiriksdóttir. Meðstjórnandi: Elsa Benjaminsdóttir. Í varastjórn eru: Tryggvi Kristjánsson, Snæþór Arnþórsson og Daði Valdimarsson. Skýrsla stjórnar Á aðalfundi Skíðafélags Dalvíkur 24. maí 2004 voru eftirtaldir aðilar kosnir í stjórn félagsins fyrir starfsárið 2004-2005: Óskar Óskarsson formaður, Bjarni Valdimarsson varaformaður, Valdís Guðbrandsdóttir gjaldkeri, Margrét Eiriksdóttir ritari Elsa Benjamínsdóttir meðstjórnandi. Snæþór Arnþórsson varastjórn Tryggvi Kristjánsson varastjórn Sveinn Brynjólfsson varastjórn. Þá sátu eftirtaldir aðilar í alpagreinanefnd: Valdís Guðbrandsdóttir Elsa Benjamínsdóttir Jóhann Bjarnason Jóhanna Skaftadóttir. Í stjórn foreldrafélagsins á starfsárinu voru. Arna Stefánsdóttir Árún Ingvadóttir Heiða Símonardóttir Anna Hafdís Jóhannesdóttir Guðmundur Óskarsson Ásdís Gunnlaugsdóttir Hólmfríður Skúladóttir. Stjórn félagsins fundaði 21 sinnum á starfsárinu en reglulegir fundir voru að jafnaði einu sinni í mánuði fram að áramótum en síðan hálfsmánaðarlega eftir áramót en þó kom fyrir að fundir voru vikulega. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn 14. júni þar sem verkefni sumarsins voru til umræðu. Það var ljóst að ekki væri ráðrúm til mikilla framkvæmda á árinu þar sem rekstur svæðisins var eins og undanfarinn ár þungur og því ekki hægt að ráðast í neinar framkvæmdir. Þó var ljóst að ekki yrði komist hjá því að fara í nokkurt viðhald á Brekkuseli innan og utanhúss og var ákveðið að fara í það um haustið þar sem búið var að leigja Brekkusel stærstan hluta sumarsins. Á síðustu árum hefur rekstur svæðisins verið að þyngjast og stefnt hefur í nokkurn tíma að stækka yrði starf svæðisstjóra úr sex mánuðum og reyna að koma því í fullt starf. Á síðustu árum höfum við ítrekað reynt að fá önnur félagasamtök, sem þurfa starfsmann yfir sumarmánuðina, í samstarf með okkur, síðast UMFS en enginn áhugi hefur hingað til verið fyrir því, alla vega hefur beiðni okkar ekki verið svarað formlega. Málin hafa aðeins verið rædd en engu skilað. Hins vegar var ákveðið á stjórnarfundi þann 14. júní að stækka starf svæðisstjóra úr sex mánuðum í átta og skoða síðan í framhaldinu möguleika á heilsársstarfi í samvinnu við aðra aðila eða jafnvel að gera starfið að heilsársstarfi hjá félaginu Í framhaldi af þessari ákvörðum var ákveðið að segja starfsmanni félagsins upp þar sem hann var með samning upp á sex mánaði og nýtt fyrirkomulag rúmaðist ekki innan þess samnings. Þetta voru allir stjórnarmenn sammála um og einnig að auglýsa eftir starfsmanni í nýtt starf seinna um sumarið og var það gert í ágúst. Þrír sóttu um starfið og var Jón Halldórsson ráðinn í starfið og hóf hann störf hjá félaginu um miðjan september. Næg verkefni lágu fyrir og var Jón aðallega í viðhaldi á Brekkuseli innan og utanhúss og síðan í viðhaldi á lyftum og öðrum búnaði tengdum rekstri skíðasvæðisins. Margra ára baráttu okkar um að byggður yrði nýr vegur að skíðasvæðinu varð að veruleika síðasta sumar en þá fór Vegagerðin í að byggja nýjan veg að svæðinu. Framkvæmdir stóðu yfir í nær tvo mánuði og lauk ekki fyrr en um miðjan ágúst. Óhætt er að segja að vegurinn hafi gjörbreytt allri aðkomu að skíðasvæðinu og síðast en ekki síst bílastæðið sem gert var í leiðinni. Það voru Dalvíkurbyggð og Skíðafélagið sem borguðu gerð stæðisins. Nýi vegurinn hefur einnig haft þau áhrif að fólk leggur leið sína upp í fjall í auknum mæli til að njóta nátturunnar og kallar það eflaust á að í nánustu framtíð verði lokið við áætlaðar framkvæmdir á svæðinu. Alla vega væri nauðsynlegt að setja upp hundaklósett á fólkvanginn. Framlag Skíðafélagsins var ein milljón sem tekið var af fyrsta framlagi Dalvíkurbyggðar til byggingar troðarageymslu. Stjórn félagsins þótti það súrt að þurfa að taka þátt í gerð stæðisins en féllst fyrir rest á að taka þátt í að greiða kostnað þess með þessu móti. Þó svo að okkur hafi tekist að fá það fram að nýr vegur var lagður að svæðinu þá hefur okkur ekki enn tekist að fá varanlega úrlausn á geymsluhúsnæðisvanda félagsins. Því er hins vegar ekki að leyna að þegar Dalvíkurbyggð ákvað á árinu 2004 að leggja 3.000.000 króna til framkvæmda við byggingu troðarageymslu á svæðinu héldum við að málið væri í höfn og áfram yrðu settir peningar í verkefnið. Við sjáum ekki tilganginn með þessu framlagi ef ekki verður tryggt áfram fjármagn í verkefnið. Það var því miður bjartsýni því að þegar við fórum að ganga eftir áframhaldandi framlagi var okkur tilkynnt að ekki yrðu settir peningar í troðarageymslu næstu fjögur árin. Líklegast hefur þetta þriggja milljón króna framlag verið mistök. Ljóst var að upp frá þessu reyndi á tiltölulega nýundirritaðan samning milli félagsins og Dalvíkurbyggðar þar sem Dalvíkurbyggð skuldbindur sig til að sjá félaginu fyrir geymsluhúsnæði við Gilveg. Þar höfum við haft geymsluhúsnæði í mörg ár en það húsnæði er nú orðið mjög lélegt og ekki óhætt að setja troðarann þar inn. Við óskuðum því eftir aðstoð Dalvíkurbyggðar við að laga húsið þannig að það yrði nothæft. Því var hafnað og beindust augu manna að Böggvisstöðum og þá hvort ekki væri möguleiki á að gera pláss í gamla refaskálanum en eftir athuganir á því var fallið frá þeirri hugmynd út af kostnaði. Þegar þetta er skrifað standa yfir viðræður við Björgunarsveitina á Dalvík um að fá leigðan hluta af húsnæði þeirra við Gunnarsbraut fyrir troðarann. Þetta er bráðabyggðarlausn á húsnæðisvanda okkar því allir sjá að það getur ekki verið lausn til frambúðar að fara allt upp í daglega með snjótroðarann í gegnum bæinn til að koma honum inn. Þá er fjarlægðin frá skíðasvæðinu of mikil af okkar mati en við höfum fallist á þessa lausn ef um semst. Ljóst er að þessi lausn hefur í för með sér töluverðan kostnað fyrir félagið þar sem húsið við Gilveg var okkur að kostnaðarlausu. Það verður hins vegar mikill kostur að koma troðaranum inn, því fyrir næstu vertíð þarf að fara í mjög kostnaðarsamt viðhald á honum því skipta þarf um beltin á honum og fleira. Áætlaður kostnaður við verkið er um 1.300.000 krónur en alveg á eftir að ræða hvernig viðgerðin verður fjármögnuð. Væntanlega er eina leiðin fyrir okkur að leita til Dalvíkurbyggðar. Þá er ljóst að viðhaldi á lyftunum verður ekki frestað lengur og allt stefnir í að ráðast þurfi í lágmarks viðhald á þeim og er áætlaður kostnaður við það um 1.000.000 króna. Sama má segja um þann kostnað en sú viðgerð hefur ekki verið fjármögnuð enn þá. Síðustu ár höfum við nýtt okkur allan snjó sem hefur komið fyrir áramót til að opna svæðið og var það eins síðastliðið haust. Það snjóaði nokkuð í nóvember og um miðjan mánuðinn var farið að huga að opnun og var svæðið opnað þann 29. nóvember. Snjórinn var ekki mikill eins og oft áður á þessum tíma en samt sem áður hægt að hafa opið með lágmarks aðstæður. Við höfðum opið þá daga sem viðraði og um helgar fram að jólum. Yfir hátíðarnar fór síðan að snjóa og það mikið að um áramótin var kominn töluverður snjór og allt benti til þess að nú væri loksins kominn vetur sem við höfðum verið að bíða eftir í mörg ár. Starfið fór á fullt og æfingar hófust af fullum krafti og þar með opnun alla daga og um helgar. Þessar aðstæður héldust út janúar en þegar nokkrir dagar voru liðnir af febrúar fór að síga á ógæfu- hliðina. Veðrið breyttist og við tók hláka sem stóð yfir það lengi að aðstæður breyttust gríðarlega á stuttum tíma. Þó svo að snjórinn hafi minnkað verulega á þessum tíma stoppaði þetta sem betur fer og aftur fór að kólna en úrkomuna vantaði. Þannig leið vertíðin og við sátum eftir með vetur sem best er að gleyma sem fyrst. Þrátt fyrir þessar aðstæður tókst að hafa opið í 99 daga sem er ótrúlegt miðað við aðstæður. Opnunardagafjöldinn gefur að vísu ekki rétta mynd af vetrinum því opnir dagar miðast við þá daga sem svæðið er opið vegna æfinga. Það hefur sýnt sig að almeningur kemur ekki á skíði við þær aðstæður sem hér voru í boði hátt í helming vertíðarinnar. Það sem kemur verst við okkur við þessar aðstæður er að hingað koma ekki hópar á skíði sem er stór tekjulind og tekjur af helgunum verða nánast engar. Svo eru það páskarnir sem verða að engu eins og í ár og þar verðum við af miklum tekjum og ætla má að venjulegir páska geti verið að skila um 1.500.000 króna í tekjum. Páskarnir í ár skiluðu 100.000 krónum sem er eins og ágæt helgi þegar aðstæður eru góðar. Þann 27. mars lokaðist svæðið vegna snjóleysis sem er mánuði fyrr en við viljum sjá. Segja má að í mars hafi einungis verið opið fyrir æfingakrakkana. Við komumst aftur á skíði í efri lyftunni við illan leik í fjóra dag rétt fyrir Andrésarleikana en þá voru aðstæður þannig að í neðri brekkuni var nánast enginn snjór og labba þurfti síðasta spölinn að Brekkuseli. Það var síðan ekkert annað í stöðunni en að pakka saman og ganga frá á svæðinu sem var lokið óvenju snemma þetta vorið. Starfsmenn svæðisins voru auk Jóns, þeir Torfi Þórarinsson og Snæþór Arnþórsson og stóðu þeir sig með mikilli prýði við þessar erfiðu aðstæður og þökkum við þeim fyrir veturinn. Sumar og haustæfingar hófust í júlí undir stórn Sveins Torfasonar og stóðu æfingarnar fram í miðjan desember en þá fóru elstu krakkarnir í æfingaferð til Noregs sem heppnaðist afar vel. Guðný Hansen skíðaþjálfari félagsins kom til móts við hópinn í Osló sem flaug þangað ásamt Höllu Steingrímsdóttur sem var fararstjóri í ferðinni. Eins og áður sagði fóru æfingar af stað strax í byrjun janúar undir stjórnar Guðnýjar Hansen sem var þjálfari hjá okkur í vetur ásamt Sveini Brynjólfssyni. Þeim til aðstoðar voru síðan Snæþór Arnþórsson og Anna Jóhannesdóttir. Eins og undanfarin ár var þátttakan mjög góð og óhætt að segja að hún sé framar björtustu vonum en um 120 börn stunduðu æfingar hjá félaginu í vetur sem er svipaður fjöldi og á síðasta ári. Til gamans má geta þess að hjá okkur eru fleiri krakkar í yngri flokkunum á æfingum en hjá nágrönnum okkar á Akureyri sem sýnir að hér er gríðarlegur áhugi fyrir skíðaíþróttinni. Í janúar var haldið byrjendanámskeið fyrir 4-5 ára börn og sóttu um 25 börn námskeiðið og hafa þau aldrei verið fleiri en í ár. Guðný hefur tekið þá ákvörðun að taka sér frí frá þjálfun og mun því ekki verða hjá okkur næsta vetur og þökkum við henni fyrir frábært starf síðustu þrjá vetur. Þessa dagana er verið að leita að þjálfara fyrir næsta vetur. Mótahald vetrarins einkenndist af aðstæðum en samt sem áður tókst að halda nær öll innanfélagsmótin ásamt einu bikarmóti sem fór fram í febrúar og var í flokki 13-14 ára. Annað bikarmót stóð til að halda hér í flokki 15 ára og eldri en því var aflýst vegna aðstæðna hér og flutt í Bláfjöll. Jónsmótið átti að fara fram helgina 12.-13. mars er var frestað vegna lélegra aðstæðna. Það var mikið áfall að þurfa að fresta mótinu loksins þegar okkur hefði tekist að koma mótinu á það ról sem við ætluðum í upphafi en það var að halda hér fjölmennt mót fyrir 9-12 ára krakka. Á síðasta ári komu 170 krakkar alls staðar af landinu á mótið sem tókst frábærlega. Það voru síðan 59 börn frá félaginu sem tóku þátt í Andrésar Andarleikunum sem haldnir voru í Hlíðarfjalli við mjög erfiðar aðstæður. Engu að síður gekk mótshaldið vel á þessu langstærsta skíðamóti sem haldið er hér á landi og er algert lífsspursmál fyrir skíðaíþróttina að mótið sé haldið. Krakkarnir okkar stóðu sig mjög vel að vanda. Eins og hér voru vandræði með snjó á nær öllum skíðasvæðum landsins og riðlaðist allt móta hald vetrarins af þeim sökum. Bikarmót SKI fóru all flest fram og aldrei þessu vant voru aðstæður í Bláfjöllum skástar og þar fór stærstur hluti mótanna fram. Skíðamót íslands átti að vera í Oddskarði en þar var enginn snjór og vorum við varastaður fyrir mótið en hér voru engar aðstæður heldur. Mótið var um tíma sett á í Bláfjöllum en þar brugðust aðstæður og að endingu hélt skíðahreyfingin mótið á Sauðárkróki undir stjórn Austfirðinga. Mótið fór fram við ágætar aðstæður og áttum við sex keppendur á mótinu sem stóðu sig með ágætum. Upp úr stóð árangur Björgvins og Kristins Inga. Björgvin varð Íslandsmeistari í stórsvigi og annar í sviginu og með þessu árangri sigraði hann alpatvíkeppnina. Kristinn Ingi Valsson gerði einnig mjög góða hluti í flokki 17-19 ára og sigraði hann bæði í svigi og stórsvigi og þar með alpatvíkeppnina. Snorri Páll Guðbjörnsson varð annar í stórsvigi í sama flokki og þriðji í sviginu og endaði því í þriðja sæti í alpatvíkeppni. Aðrir keppendur frá okkur voru Kári Brynjólfsson, Kjartan Hjaltason og Harpa Rut Heimisdóttir og stóðu þau sig einnig vel. Sömu sögu er að segja af Unglingameistaramótinu en það átti upphaflega að fara fram á Ísafirði en vegna snjóleysis var mótið fært til Siglufjarðar. Í vetur voru þeir Snorri Páll Guðbjörnsson og Kári Brynjólfsson við æfingar með afrekshóp Skíðafélags Akureyrar. Þessi möguleiki fyrir okkar fólk er mjög góður en hann gerir þeim kleift að stunda skíðin af krafti án þess að þurfa að leggja margar milljónir í skíðaútgerð á hverju ári. Kristinn Ingi Valsson og Björgvin Björgvinsson eru í A landsliði SKI sem dvelur og æfir erlendis stærstan hlutann úr árinu. Í liðinu eru fjórir aðilar þannig að Skíðafélagið á 50% af liðsmönnum sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt úr ekki stærra bæjarfélagi. Það er hins vegar ekki létt fyrir okkur að eiga menn á þessu getustigi í skíðaíþrótinni því hún er mjög dýr eins og allir sem skíðaíþróttina þekkja. Þó svo að þetta kosti mikið er kostnaðurinn í algeru lágmarki fyrir strákana því tekist hefur með eljusemi Skíðasambandsins að gera þetta á sem ódýrastan hátt. Kostnaðaráætlun fyrir næstu vertíð er um 2.200.000 króna fyrir hvorn þeirra. Þetta eru miklir peningar en þykir ekki mikið í skíðabransanum. Skíðafélag Dalvíkur hefur af bestu getu reynt að afla fjár til þessa létta undir með strákunum en það gengur misvel. Verkefnið sem þeir félagar eru að hefja undirbúning fyrir er stærsti íþróttaviðburður sem íþróttamenn komast á en það eru Olympíuleikarnir sem haldnir verða í Toríno á Ítalíu í febrúar 2006. Þeir hafa báðir náð lágmörkum og þar með tryggt sér keppnisrétt á leikunum en nú í vor gulltryggðu þeir sig á mótum sem haldin voru í Bandaríkjunum Ég efast um að nokkurt félag eða bæjarfélag á Íslandi af okkar stærðargráðu hafi átt tvo Ólympíufara í alpagreinum á sömu leikanna. Ætla mætti að það auðveldaði þeim að fjármagna sig fram yfir leikanna og vonumst við eftir að þar gangi eftir. Þá vonum við að Dalvíkurbyggð komi að málum og aðstoði þessa stráka við að undirbúa sig fyrir þennan stóra íþróttaviðburð. Það er ekki víst að við eigum nokkurn tímann tvo aðila á ólympuleikum aftur. Eins og fram hefur komið hér að ofan þá einkenndist rekstur skíðasvæðisins í vetur eins og marga aðra af snjóleysi. Það er því ljóst að við verðum að grípa til einhverra ráða til að tryggja rekstur svæðisins og eina ráðið er að sækja fram á við en ekki bíða eftir að skíðasvæðið verði lagt niður hægt og hljótt vegna snjóleysis. Stjórn félagsins hefur síðustu vikur verið að kanna möguleika á því að sett verði upp snjókerfi í fjallið. Sá möguleiki er að okkar mati eini möguleikinn og vel framkvæmanlegur og tryggir áframhaldandi rekstur svæðisins. Snjókerfi kæmi einfaldlega í veg fyrir að við drægumst aftur úr öðrum skíðasvæðum sem hugsa sér til hreifings með snjóframleiðslu. Rætt hefur verið við aðila sem eru reiðubúnir til að koma með framlag í formi peninga í verkefnið og styðja okkur í að halda Dalvík á kortinu sem skíðabæ. Þeir sem hafa tjáð sig um þessa hugmynd eru sammála okkur og vilja að við í Dalvíkurbyggð höldum því sem við höfum og þá að sjálfsögðu með framtíðina í huga. Hins vegar er ljóst að fleiri sjónarmið eiga eftir að koma upp á yfirborðið þegar og ef ákvörðun um snjókerfi verður tekin og líklegt að við höfum bara heyrt í þeim jákvæðu. Þeir sem hins vegar efast um framkvæmdina hafa fullan rétt á þvi en ég vil biðja þá að hugsa aðeins um að ef skíðasvæðið okkar verður snjólaust mörg ár í viðbót lokast það sjálkrafa og á hreinu að á þeim tímapunkti myndi skíðaiðkun í Böggvisstaðafjalli ljúka. Hvað hefðu þau 120 börn og unglingar sem stunda skíðin á fullu á veturna þá fyrir stafni? Því get ég ekki svarað. Þá höfum við rætt þann möguleika að opna svæðið og hefja vertíðina strax í fyrstu snjóum á haustin og bregðast við snjóleysinu sem hefur hrjáð okkur seinni hluta hefðbundinnar skíðavertíðar, það er í mars og apríl. Hingað til hefur verið lágmarks opnun fyrir áramót og þar af leiðandi hafa til dæmis æfingar ekki hafist fyrr en í janúar. Með þessu breytingum myndu æfingar hefjast um leið og fyrstu snjóar kæmu á haustin. Það er von okkar að Dalvíkurbyggð styðji þessar hugmyndir og að þær geti orðið að veruleika fyrir næsta vetur en þá verður Skíðamót Íslands haldið hér og á Ólafsfirði. Að lokum vil ég þakka stjórn félagsins, nefndum, sjálfboðaliðum og starfsmönnum fyrir samstarfið á árinu og þeim fjölmörgu aðilum sem studdu félagið á einn eða annan hátt. Dalvíkurbyggð þökkum við einnig fyrir stuðninginn og vonumst eftir áframhaldandi stuðningi við að halda úti Skíðafélagi og skíðasvæði í Dalvíkurbyggð í ókominni framtíð. f.h. stjórnar Skíðafélags Dalvíkur ________________________ Óskar Óskarsson formaður