Björgvin Björgvinsson íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2005

Í dag var Björgvin Björgvinsson kjörinn íþróttamaður Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2005. Á myndasíðunni eru myndir frá kjörinu í dag. Í greinargerð vegna kjörsins segir meðal annars. Björgvin er einn fremsti íþróttamaður landsins í dag og hefur síðustu ár verið fastamaður í landsliði Skíðasambands Íslands. Á þessu ári hefur hann verið við æfingar með landsliðinu sem hefur stærstan hluta ársins verið við æfingar og keppni erlendis. Síðastliðin vetur tók hann þátt í mörgum alþjóðlegum mótum, bæði FIS og evrópubikarmótum og fikraði sig upp lista alþjóða skíðasambandsins. Á Skíðamóti Íslands síðast liðið vor varð hann Íslandsmeistari í stórsvigi, hafnaði í öðru sæti í svigi og vann því alpatvíkeppnina. Eftir að síðustu skíðavertíð lauk hjá honum hófst undirbúningur fyrir yfirstandandi skíðavertíð. Hann æfði allt upp í daglega í allt sumar og haust og hefur aldrei verið í betra formi og uppskar eftir því á fyrstu mótum vetrarins. Í haust urðu kaflaskipti hvað varðar árangur Björgvins því þá náði hann frábærum árangri þegar hann varð hlutskarpastur í Ástralíu/Nýjasjálandsbikarnum, keppnin gengur undir nafninu Álfubikarinn og er mjög sterk mótaröð þar sem margir af sterkustu skíðamönnum heims mæta til leiks. Á nýjasta heimslista FIS er Björgvin í 78 sæti í svigi og 137 sæti í stórsvigi en betri árangri hefur aðeins einn íslenskur skíðamaður náð. Björgvin hefur verið valin til þess að taka þátt í Ólympíuleikunum sem fram fara í Torino á Ítalíu í febrúar 2006 og hefur allur undirbúningur síðustu mánuði tekið mig að þessum stórviðburði.