Dagny keppir i kvöld.

Í dag fer fram keppni í stórsvigi kvenna á Heimsmeistaramótinu í Are í Svíþjóð. Keppnin hefst kl 16 að íslenskum tíma og þar á meðal keppenda verður Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri en hún verður með rásnúmer 64. Færið í keppnisbrekkunni er eins gott og það gerist best, þurrpakkaður og harður snjór þannig að brautin ætti að vera í þokkalegu lagi þegar röðin kemur að Dagnýu að renna sér. Brun og risasvig eru aðalgreinar Dagnýar en stórsvigið er aukagrein hjá henni á þessu móti og verður forvitnilegt að sjá hvar hún stendur í þeirri grein miðað við þær bestu í heiminum í dag. Hún er vel stemd og hlakkar til keppninnar í dag sem er hennar síðasta grein á mótinu. Björgvin Björgvinsson frá Dalvík keppir á morgun í stórsvigi karla og verður hann eini Íslendingurinn þar á meðal þátttakenda eftir að þeim Gísla Rafni Guðmundssyni og Þorsteini Ingasyni mistókst að tryggja sér sæti í aðalkeppni stórsvigsins í undankeppninnni í gær. Gísli varð nr 26 en 25 fyrstu komust áfram í aðalkeppnina. Þorsteinn féll úr keppni í seinni ferð eftir að hafa verið 28. eftir fyrri ferðina. Kristinn Ingi Valsson verður heldur ekki á meðal keppenda þar sem hann er farinn í frí vegna veikinda sem hafa hrjáð hann undanfarnar vikur.