Enn vonsku veður á Dalvík.

Ekkert lát er á norðan stórhríð sem hér hefur verið síðan um helgi og hafa starfsmenn skíðasvæðisins ekkert getað aðhafst á skíðasvæðinu vegna veðursins. Mjög mikill snjór er kominn á svæðið að sögn starfsmanna og ljóst að það tekur marga daga að koma því öllu í gang eftir að veðrið gengur niður. Það hefur ekki snjóað eins mikið hér í mörg ár og þarf að fara aftur til ársins 1995 til að finna samanburð. Þetta eru gleðitíðindi fyrir alla skíðaáhugamenn því skortur hefur verið á skíðasnjó síðustu ár. Það er ljóst að spámenn Veðurklúbbsins á Dalbæ hafa heldur betur verið sannspáir en þeir spáðu því að í janúar fengjum við "að rifja upp hvernig stórhríð lítur út". Janúar spáin frá þeim hljómar þannig: "Klúbbfélagar hafa fulla trú á að það verði ágætis skíðasnjór næstu vikurnar og að við finnum trúlega eitthvað fyrir því þegar bætir á hann, eða eins og einn félaginn orðaði það: "það er ekki ólíklegt að við fáum að rifja upp hvernig alvöru stórhríð lítur út." En menn geta þó huggað sig við að stórhríðarkaflinn verður ekki langur. Klúbbfélagar segja að veturinn hafi verið ákaflega umhleypingasamur, og allt útlit er fyrir að svo verði áfram, staða tunglsins er þannig. En þó búast þeir við góðum stillum inn á milli, og góðu skíðaveðri."