Framkvæmdum að mestu lokið í Barnabrekku

Þá er framkvæmdum að mestu lokið Barnabrekkunni. Myndir segja meira en 1000 orð og gætum við ekki verið ánægðari með hvernig til tókst. Snillingarnir á Steypustöð Dalvíkur þeir Óskar og Ódi fóru eins ljúfum höndum um svæðið eins og mögulegt var. Rétt eins og við bentum á í upphafi vissum við að um mikið rask væri að ræða en jafnframt að gengið yrði frá eins vel og hægt yrði. Þeir félagar hjá Steypustöðinni vönduðu sig gríðarlega við þetta verk og er frágangurinn langt umfram okkar björtustu vonir.
Nú fær svæðið frið til að jafna sig og búið er að sá í sárin og erum við að bera áburð til að flýta fyrir uppgræðslu ásamt því að grjóthreinsa brekkuna. Við hlökkum til að geta sýnt afrakstur þessarar miklu vinnu í vetur og bjóða upp á frábæra byrjendabrekku.
Við hjá Skíðafélagi Dalvíkur viljum þakka þeim hjá Steypustöðinni fyrir aðstoðina því Steypustöðin styrkti verkefnið að hluta til ásamt því að vanda ótrúlega vel til verka, takk kærlega fyrir.