Frétt af heimasíðu SKI. Páll Grétarsson skrifar um bikarmót helgarinnar.

Eftirfarandi grein er að finna á heimasíðu SKI. Ljóst er að varla er hægt að fara fram á betri meðmæli og þökkum við fyrir okkur. Heimsbikaraðstæður á Dalvík 5.3.2007 Skíðafélag Dalvíkur og Skíðafélag Ólafsfjarðar héldu 2 svigmót í flokki 15 ára og eldri við ,,heimsbikaraðstæður" á Dalvík um helgina. Færið var eins og best verður á kosið og veðrið lék við keppendur og gesti, sérstaklega á sunnudaginn þegar sól skein í heiði. Öll framkvæmd mótsins var til fyrirmyndar og ánægjulegt að fylgjast með hnökralausri samvinnu mótshaldara, þar eru vanir menn á ferð. Enn eina ferðina sannaði snjóframleiðslan yfirburði sína í samkeppninni við ,,náttúrulega ofankomu" sem því miður hefur verið af skornum skammti í vetur. Það er ljóst að ef Dalvíkingar nytu ekki þeirrar gæfu að hafa komið upp snjóframleiðslukerfi á neðri hluta skíðasvæðisins í Böggvistaðafjalli hefði ekki verið haldið skíðamót á Dalvík um þessa helgi. Það er örugglega mikilvægt fyrir bæjarfélag eins og Dalvík og aðila í ferðaþjónustu á svæðinu að fá á annað hundrað gesti til bæjarins í tengslum við skíðamót, að ekki sé talað um stærri viðburði eins og Skíðamót Íslands og Unglingameistaramót auk almennings sem sækir auðvitað í skíðaiðkun þar sem aðstæður eru bestar. Skíðasamband Íslands hvetur Dalvíkinga til að fullgera snjóframleiðslukerfið og tryggja til framtíðar ,,heimsbikaraðstæður" til mótahalds í alpagreinum á Dalvík. Páll Grétarsson form. mótanefndar SKÍ