Frétt af www.bb.is. Aka til Dalvíkur á skíði

Yfirþjálfari unglinga 13 ára og eldri hjá Skíðafélagi Ísfirðinga fer núna um miðjan dag akandi til Dalvíkur með nokkur ungmenni til skíðaæfinga í alpagreinum. Krakkarnir munu vera þar við æfingar yfir helgina og gista í skíðaskálanum Brekkuseli, þau munu svo aftur halda heim eftir æfingar á sunnudag. Margrét Halldórsdóttir formaður SFÍ segir ástandið sem hér ríki vera afskaplega dapurlegt og það sé alveg ótrúlegt að það skuli þurfa að keyra fólk til æfinga í öðrum landshlutum á meðan að hér sé snjór. Helsta áhyggjuefni Margrétar er að krakkarnir sem hafa verið að æfa skíði undanfarin ár snúi sér bara að einhverju öðru ef ekkert verður aðhafst í málefnum skíðasvæðisins. Skíðafélag Ísafjarðar hefur sent Ísafjarðarbæ tilboð þar sem þau bjóðast til aðkomu að rekstri skíðasvæðisins og eru þau mál í skoðun hjá bæjaryfirvöldum. Því er ekki loku fyrir það skotið að Skíðasvæðið í Tungudal geti opnað eitthvað fyrr en rætt hefur verið um að undanförnu.