05.06.2005
Snjóframleiðsluvélar í Böggvisstaðafjall?
Undanfarna mánuði hafa forsvarsmenn Skíðafélags Dalvíkur unnið að kanna
grundvöll fyrir því að kaupa snjóbyssur (snjóframleiðsluvélar) til að setja
upp í Böggvisstaðafjalli. Lauslega útskýrt virka snjóbyssurnar þannig, að
þær taka inn á sig vatn, frysta það, og með sérstöku dreifikerfi er síðan
snjó úðað yfir skíðabrekkurnar.
Óskar Óskarsson, formaður Skíðafélags Dalvíkur, segir að með þessu sé verið
að bregðast við breyttu veðurfari og minni snjó eins og staðreyndin hafi
verið undanfarna vetur. "Við erum í rauninni að berjast fyrir því að halda
Dalvík inni á kortinu sem framtíðarskíðasvæði á Norðurlandi. Ef ekkert
verður að gert þá drögumst við bara afturúr og það uppbyggingarstarf sem
unnið hefur verið í Böggvisstaðafjalli undanfarin þrjátíu ár verður að engu
og það held ég að enginn vilji. Við reynum að horfa á þetta út frá hagsmunum
heildarinnar, með ferðaþjónustuna sem útgangspunkt, því fullyrða má að
megnið af þeim ferðamönnum sem hingað kemur yfir vetrartímann til lengri eða
skemmri dvalar, er að sækjast eftir því að komast á skíði."
Vinna að fjármagna kaup á snjóframleiðsluvélunum og tilheyrandi búnaði er
þegar hafin. "Við höfum leitað til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana og
óhætt að segja að þær undirtektir sem við höfum fengið lofi góðu. Þetta er
hins vegar kostnaðarsöm framkvæmd svo við þurfum á miklum velvilja að halda
til að þetta megi takast," sagði Óskar Óskarsson að lokum.