Fréttabréf frá stjórn.

Skíðasvæði Dalvíkur við bestu aðstæður
Skíðasvæði Dalvíkur við bestu aðstæður

Þessa dagana er skíðasvæðið að klæðast vetrarbúningi, brekkurnar að verða klárar hver af annari og útlitið þessa dagana ljómandi gott fyrir komandi skíðavertíð. Í dag 8. janúar hefur svæðið verið opið í 26 daga. Allt annað ástand er á snjóamálum í fjallinu í dag en fyrir ári en segja má að allur síðasti vetur hafi reynst erfiður snjóalega séð. Þrátt fyrir að nokkuð hafi snjóað frá náttúrunnar hendi síðustu vikur er snjókerfið, eins og undanfarin ár, að gera gæfumuninn. Hver frostakafli síðustu vikur hefur verið nýttur í snjóframleiðslu og töluvert magn af snjó verið framleitt. Eins og síðustu ár er öll snjóframleiðsla styrkt af mörgum af velunnurum félagsins. Að þessu sinni eru það KEA, Samherji, Katla, Samskip,Tréverk, Samhentir, Norfish, Eimskip og Fiskmarkaður Norðurlands. Þessum aðilum er félagið afar þakklátt því víst er að ekki væri hægt að framleiða snjó í jafn miklu magni án stuðnings þeirra.

Líklega átta sig aðeins þeir sem þekkja vel til snjóframleiðsluferilsins á því hvað skiptir mestu máli þegar að snjófamleiðslu kemur. Vatnsöflun er frumskilyrði fyrir því að framleiða snjó og því gegnir Stórhólstjörnin lykilhlutverki í ferlinu. Vatnið er tekið úr tjörninni, sem er 7600 fermetrar að flatarmáli. Í tjörninni eru að jafnaði 8000 rúmmetrar af vatni, uþb 4500 m3 nýtanlegir yfir veturinn vegna þess að uþb 40 cm ís er yfir henni á veturna. Í tjörnina renna síðan um 120 rúmmetrar af vatni á klst úr Brimnesánni en þar eru mannvirki sem sett voru upp til að tryggja innrennslið í tjörnina. Í tjörninni eru inntakstankar og dælubrunnur en í brunninum er dæla sem dælir vatni að aðaldælu kerfisins í dæluhúsinu. Þessum búnaði þarf síðan að viðhalda sem ekki er gert nema tæma tjörnina reglulega og hreinsa inntakstanka og dælubrunn. Tjörnin var tæmd síðast í haust í vikutíma og allur dælbúnaður hreinsaður. 5 daga tók síðan að renna í hana á ný. Stórhólstjörnin er því eitt okkar mikilvægasta mannvirki þegar að snjóframleiðslu kemur.

Á skíðasvæðinu í vetur eru sex starfsmenn í fimm stöðugildum og er Einar Hjörleifsson svæðisstjóri. 

Kennsla og æfingar verða með svipuðu sniði og síðustu vetur. Æfingataflan hefur verið borin í hús í Dalvíkurbyggð og einnig hægt að nálagst hana á skíðasvæðinu. Almennar æfingar hófust þriðjudaginn 2. janúar samkvæmt æfingatöflu. Elstu æfingakrakkarnir hafa hins vegar æft þó nokkuð síðustu vikur og eru nýlega komin heim úr vel heppnaðri æfingaferð til Oppdal í Noregi. Þjálfarar og kennarar í vetur eru Sveinn Torfason, Hjörleifur Einarsson, Harpa Rut Heimisdóttir og Sólrún Anna Óskarsdóttir ásamt aðstoðarfólki þegar á þarf að halda.

Foreldrafélagið stendur fyrir ýmsum viðburðum í vetur eins og undanfarin ár. Stærsta fjáröflunun foreldrafélagsins er dósasöfnun. Að jafnaði er farið í 2-3 dósasafnannir á ári og fer það sem safnast óskert til æfingabarna félagsins, meðal annars til að greiða niður Andresarleikana og njóta að jafnaði 80 börn þessara dósasafnana. Næsta dósasöfnun er áætluð dagana 5-11 janúar og mega bæjarbúar eiga von á heimsókn frá skíðakrökkunum okkar. Alltaf hefur verið tekið vel á móti þeim og vill foreldrafélagið koma fram þakklæti til bæjarbúa fyrir góðar viðtökur.

Skíðaleiðir í Böggvisstaðafjalli. Verið að uppfæra myndina með skíðaleiðum á skíðasvæðinu, auðkenna skíðaleiðir betur, bæta inn kennnileitum og fleira. Eins og með snjóframleiðsluna þá eru það velunnarar félagsins sem styrkja verkefnið en þeir eru allir þjónustuaðilar á Dalvík. Styrktaraðilar eru Kjörbúðin, Apótekarinn, Á Gregors, Blágrýti veisluþjónusta, Sundlaug Dalvíkur, Olís, Arctic Heli Skiing og Hótel Dalvík. Félagið þakkar þessum aðilum fyrir stuðninginn.

Bæta varð við og endurnýja búnað til æfinga til þess að geta haldið okkar striki í kennslu og æfingum. Slíkur búnaður kostar töluvert og var leitað til Sæplasts sem styrkti kaupin og þökkum við kærlega fyrir það. Þess má geta að um 110 börn og unglingar eru í kennslu og við æfingar hjá félaginu á hverjum vetri í alpagreinum.

Nýtt myndavélakerfi. Verið er að vinna að uppsetningu á öflugu upplýsinga- og eftirlitsmyndavélakerfi á skíðasvæðinu sem verður aðgengilegt á netinu. Slík kerfi eru komin á mörg skíðasvæði á Íslandi og eru nánast án undantekninga á skíðasvæðum erlendis. Að minnsta kosti fjórar myndavélar verða settar upp á svæðinu og verða þær aðgengilegar til skoðunar fyrir áhugasama á heimasíðu félagsins skidalvik.is. Betur verður sagt frá þessu áður en kerfið verður tekið í notkun sem vonir standa til að verði í byrjun janúar 2018.

Á næstu dögum fer ný heimasíða í loftið og mun hún leysa núverandi heimasíðu af hólmi. Síðan er unnin og hönnuð af Stefnu. Ný heimasíða var orðin aðkallandi og er mikið framfaraskref fyrir félagið og svæðið. Núverandi síða er barn síns tíma en hún var tekin í notkun 2001, fyrir rétt 16 árum. Gunnlaugur Jónsson sá um hönnun og uppsetningu hennar og hefur séð um að viðhalda henni frá upphafi. Síðan hefur dugað vel, verið mikið notuð og var bylting á sínum tíma. Fysta heimasíða félagsins fór í loftið 1998 og áttu þeir Sveinn Torfason og Normaðurinn Stian Watn sem þá voru þjálfarar félagsins allan heiðurinn að henni.

Ljósleiðari kominn á skíðasvæðið. Þessi tvö verkefni, ný heimasíða og nýja upplýsinga- og eftirlitsmyndavélakerfið þurfa mun betri nettengingu og meiri hraða til að nýtast sem best. Því var ekki hjá því komist að tengjast ljósleiðara og er nú búið að tengja leiðarann í Brekkusel. Ljósleiðari á svæðið gefur líka nýja möguleika varðandi allt starf félagsins.

Ráðist þurfti í kaup á ýmsum búnaði varðandi öryggismál á svæðinu fyrir veturinn. Þetta er viðbót við annan búnað sem fyrir var en verið var að uppfæra og endurnýja.

Hér að ofan er sagt frá því helsta sem er í gangi hjá félaginu þesssa dagana og því sem er framundan. Eins og áður sagði þá var síðasti vetur efiður vegna snjóleysis en við erum þess fullviss að annað verði upp á teningnum í vetur og í vændum sé góð skíðavertið. Við hvetjum því skíðaáhugafólk til þess að koma á skíði í Böggvisstaðafjall og nýta sér það að geta skellt sér á skíði við bæjardyrnar á Dalvík. Fyrir þá sem vilja nýta sér gistingu í Dalvíkurbyggð og veitingar er bent á dalvikurbyggd.is og á merkingar á skíðaleiðaskiltinu.
Við óskum skíðafólki nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Kveðja
Stjórn Skíðafélags Dalvíkur