Komið sæl og gleðilegt árið kæru vinir.
Þó svo að varla hægt sé að segja að það hafi komið vetur og hvað þá almenn opnun þá höfum við ekki verið verkefnalaus hér á skíðasvæðinu.
Segja má að fasi 2 í uppbyggingu á nýja aðstöðu húsinu hafi byrjað síðasta haust og er hann á lokametrunum. Markmiðin voru tvö, að klára þakið á húsinu, þar að segja einangrun, snjóbræðslu og hellulögn og ganga frá því þannig að það myndi nýtast af fullum krafti í vetur. Það markmið náðist fyrir jól og er þakið klárt í komandi vertíð sem 380 fm. sólpallur fyrir gesti okkar.
Hitt markmiðið var að gera verkstæði hluta hússins nothæft fyrir vertíðina og er það markmið að nást. Rafmagnið, vatnið, málun og ýmislegt fleira þurfti til, aðeins er eftir nokkur atriði til að hægt sé að renna tækjunum inn í hlýjuna. Verkefnin hafa verið samstillt átak verktaka, starfsmanna skíðasvæðisins, stjórnar og félagsmanna og koma margar hendur að svona verkefni.
Við höfum verið ótrúlega heppin með styrktaraðila og verktaka og hafa margir góðir aðilar komið að verkinu.
Tréverk með smíðavinnu, Steypustöð Dalvíkur með jarðvinnu og steypu, Electro með rafmagn, Flæði Pípulagnir, Rotovia með lagnir og einangrun, Víkurkaup með efni, Johan Rönning með rafmagnsefni, Slippurinn Akureyri með stálsmíði, Salt-salt með hellulögnina, Ferro Zink með efni, Blikk og Tækni með loftræstingu og Samherji með veglegum styrk. Safnast hafa um 30 milljónir í verkefnið frá þessum aðilum, ásamt að sjálfsögðu ómældu þakklæti til Dalvíkurbyggðar fyrir að styrkja starfið okkar svona vel.
Veturinn hefur vissulega farið brösulega af stað líkt og í fyrra en við látum það ekki á okkur fá og erum á fullu að framleiða snjó þessa dagana, Eftir mjög góða framleiðslutörn í nóvember-desember bráðnaði nánast allt um jólin í hitanum.
Ein breyting varð á snjóframleiðslukerfinu á árinu sem var að líða, samhliða því að leggja nýtt rafmagn til að anna nýja aðstöðu húsinu var tækifærið nýtt og lagður afkastamikill strengur í jörð sem gerir okkur kleift að keyra allar sex snjóbyssurnar á sama tíma, áður höfðum við aðeins rafmagn fyrir fimm og finnum við strax munin á því hversu auðveldara er að koma svæðinu inn. Vonandi í næstu framtíð finnst peningur til að efla dælukerfið og auka afköstin enn frekar.
Þrátt fyrir erfiða byrjun eru æfingahópar eldri iðkenda búnir að ná töluvert af æfingum og er elsti flokkurinn búin að æfa 23 sinnum og næst elsti 12-13 sinnum. Við erum full bjartsýni með þennan vetur enda rétt að byrja og við sjáum fram á að geta opnað Neðri Lyftubrekku von bráðar og æfingar eru þegar hafnar aftur neðst á svæðinu.
Vonandi verður veturinn góður.
Með Kv. Stjórn Skíðafélags Dalvíkur.




