31.01.2003
Að öðrum ólöstuðum eru þeir Jón Halldórsson og Þorsteinn Skaftason meðal
þeirra sem hvað flestar vinnustundir eiga að baki á skíðasvæðinu í
Böggvisstaðafjalli.
Þeir voru meðal hvatamanna og stofnenda félagsins fyrir
réttum þrjátíu árum og hafa fylgt eftir öllum verkefnum félagsins síðan þá.
Þeir félagar segja að þegar spjaldalyftan kom upp á sínum tíma hafi þeim
þótt svo mikið framfaraskref vera stigið að ekki þyrfti að framkvæma meira í
fjallinu. "Við höfum sennilega þroskast með aldrinum og gert okkur grein
fyrir að þetta verkefni er endalaust," segja þeir Þorsteinn og Jón og eiga
erfitt með að leyna glottinu.
Raunar má rekja forsögu að stofnun Skíðafélags Dalvíkur allt aftur á sjötta
áratug síðustu aldar þegar fáeinir áhugasamir ungir menn byrjuðu að rölta
upp í fjall með skíði á öxlum og glíma við Löngulautina og fleiri góða
skíðastaði. Á árunum fram undir 1970 komu síðan fram frumstæðar tilraunir
með skíðalyftubúnað, fyrst toglyfta knúin með jeppamótor og spili úr
snurpubáti. Sú lyfta var prófuð nokkuð ofarlega í fjallinu en jeppamótorinn
reyndist ekki geta knúið kaðalinn áfram í svo miklum halla þannig að lyftan
var færð niður sunnan við Löngulaut. "Við sem að þessu stóðum greiddum þann
kostnað sem til féll en einn aðal hugmyndafræðingurinn að þessu var Heiðar
Árnason í Staðarhóli. En hér á staðnum hafa varla verið nema um 10 manns sem
stunduðu skíði að marki þegar þetta var," segja þeir félagar.
Laust fyrir 1970 gerðu Kristján Jónsson og Baldur Friðleifsson, ásamt
fleirum, tilraun með aðeins öflugri búnað til að knýja lyftu og í þetta sinn
var hún knúin með dráttarvél. Sú toglyfta var reynd á tveimur stöðum í
fjallinu og gekk þokkalega. Árið 1971 kom síðan mikið snjóleysisár en samt
sem áður voru hinir áhugasömu frumkvöðlar á staðnum byrjaðir að horfa í
kringum sig með kaup á alvöru lyftubúnaði í Böggvisstaðafjall. Lyftur voru
orðnar þekktar á mörgum skíðasvæðum og ekki vildu Dalvíkingarnir að
staðurinn drægist aftur úr í þróuninni.
"Aðdragandinn að stofnun félagsins er þannig að árið 1970 kom ég aftur
hingað heim til að taka við íþróttakennslu í grunnskólanum. Ég byrjaði strax
að velta því fyrir mér hvort ekki væri hægt að ráðast í kaup á lyftu og
komst þá að því að Skíðasamband Íslands hafði tekið að sér að greiða götu
skíðafélaga út um landið að hagstæðum lánum til kaupa á spjaldalyftum. Þegar
ég hafði samband við Skíðasambandið vorum við búnir að missa af lestinni til
að fá lánafyrirgreiðslu en gátum engu að síður fengið lyftu ef við gætum
leyst fjármögnunina. Þá kom til kasta góðra manna að leggja okkur lið og má
segja að Hallgrímur Antonsson (Haggi) og Hilmar Daníelsson hafi verið
lykilmenn í því að tryggja okkur velvilja og hjálp bæjarsjóðs. Við gengum
líka í hús til að safna peningum en það var auðvitað ekki stór fjárhæð sem
skipti sköpum en allt hjálpaði," segir Jón.
Stofnun skíðafélags besti kosturinn
Spjaldalyftunni var komið upp sumarið 1972 og þá var ljóst að koma yrði
formi á rekstur hennar. Kostirnir í stöðunni voru þrír, þ.e. að bæjarfélagið
yrði rekstraraðilinn, að ungmennafélagið tæki við lyftunni eða að stofnað
yrði skíðafélag. Þeir sem komið höfðu að uppbyggingunni settust niður á
fundi og völdu síðasttalda kostinn og eru þeir Jón og Þorsteinn sammála um
að sú ákvörðun hafi vafalítið verið sú besta. "Skíðafélög voru ekki óþekkt á
landinu á þessum árum en í mörgum tilfellum voru skíðadeildir starfandi
innan ungmennafélaganna á stöðunum. Í okkar huga er skýrt að félagið hefði
ekki vaxið svo mikið sem raun ber vitni ef það hefði ekki verið sjálfstætt."
Nú var snjóboltinn byrjaður að rúlla í Böggvisstaðafjalli og eins og segir
áður þótti mönnum sem spjaldalyftan væri slíkt mannvirki að meira þyrfti
ekki í framtíðinni. Fyrstu tvö árin knúði díselmótor lyftuna en enginn vegur
var að lyftunni þannig að Þorsteinn, Jón og félagar sáust oft með olíubrúsa
í togi upp í fjall. Sumir góðborgararnir á Dalvík litu þessa skíðaáhugamenn
hálfgerðu hornauga, enda íþróttin nánast framandi fyrir almenning. Jón
rifjar upp að hann hafi stundum fengið að heyra glósur þegar hann skundaði
upp í fjall eftir vinnu á góðviðrisdegi. "Ég man að einn maður vék sér að
mér þegar ég var með skíðin á öxlunum og spurði mig hvort mér væri ekki nær
að halda mig heima og reyna að gera eitthvað ærlegt handtak en að leika mér
á skíðum fram á kvöld!"
Síðan eru liðin mörg ár og skíðamenntin orðin töluvert meira útbreidd meðal
almennings.
Sprenging í áhuga á skíðaíþróttinni
Toglyftan á dráttavélinni og spjaldalyftan strax í framhaldinu ollu að sönnu
straumhvörfum. Unglingar og börn á staðnum fengu áhuga á skíðasportinu og
afreksmenn síðari ára eyddu mörgum dögum í fjallinu. Í þeim hópi voru
Björgvin Hjörleifsson og seinna Daníel Hilmarsson, sem báðir vöktu síðar
athygli á skíðamótum og vörpuðu kastljósinu að skíðaaðstöðunni í
Böggivsstaðafjalli.
Sjálfboðavinna var á þessum árum mikil og hefur alla tíð verið hjá
skíðafélaginu. Eftir að Jón varð starfsmaður Skíðafélagsins var það gjarnan
svo að hann fór í fjallið eldsnemma á morgnana til að gera klárt áður en
hann hóf kennslu í brekkunum. Þorsteinn rifjar upp að oftast hafi
sjálfboðaliðar leyst Jón af við lyftustjórnina síðdegis til að hann gæti
kennt börnunum skíðamenntina.
Þeir Þorsteinn og Jón eru sammála um að í þeirra huga standi hinar miklu
framkvæmdir félagsins uppúr í minningunni. Þeirri sprengingu í skíðaáhuga á
Dalvík með tilkomu spjaldalyftunnar varð að fylgja eftir með aukinni
aðstöðu. Fyrst kom 16 fermetra aðstöðuhús árið 1975 fyrir norðan
spjaldalyftuna og á sama tíma var lögð raflína að lyftunni. Árið 1977 var
sett diskalyfta fyrir ofan spjaldalyftuna, enda afkastaði gamla lyftan engan
veginn á álagstímum. Diskalyftan gegnir enn sínu hlutverki í dag en
spjaldalyftan vék fyrir nýrri og lengri lyftu árið 1985 og þar með færðist
neðri endi skíðasvæðisins nær byggðinni.
Troðararnir meiri bylting en lyfturnar
Snjótroðarakaup voru orðin umrædd meðal skíðafélagsmanna við lyftukaupin
1977 en sá draumur varð að veruleika árið 1981. Annar og stærri troðari var
keyptur árið 1995 en Jón segist ekki í vafa um að troðararnir hafi í raun
verið mesta byltingin sem orðið hafi hjá félaginu. "Troðararnir gerðu okkur
kleift að troða brautir lengra út frá lyftunum en ekki síst nýtast þeir
okkur frábærlega í þessum lautum þar sem við getum náð okkur í snjó og ýtt í
auða bletti í brekkunum. Aðstaðan sem við höfum hér frá náttúrunnar hendi er
í raun mjög góð en af umhverfisástæðum getum við mjög lítið gert til að laga
til landið þannig að við verðum þess vegna að nýta okkur lautirnar fyrir
snjósöfnun og vinna svo með troðurunum," segir Jón.
Nýjasta framkvæmdaverkefnið sem Skíðafélagið réðst í var bygging
félagsaðstöðunnar í Brekkuseli, sem jafnframt er stjórnhús fyrir neðri
lyftuna. Þeir Jón og Þorsteinn segja að þegar það hús var byggt árið 1991
hafi þátttaka sjálfboðaliða í starfinu verið hvað mest, enda var hægt að
nýta margar vinnufúsar hendur.
Skíðafélagið hefur alltaf notið góðrar aðstoðar bæjarsjóðs, fyrirtækja og
einstaklinga í framkvæmdaverkefnum en reksturinn hefur alltaf þurft að bera
stóran hluta kostnaðar. "Við höfum alltaf haft ákveðinn grunn að byggja
fjárfestingarnar á en eins og gengur höfum við alltaf þurft að taka ákveðna
áhættu. Sér í lagi var bygging Brekkusels þungur biti en heilt yfir hefur
þetta gengið vel, ekki síst vegna fórnfúsrar vinnu einstaklinga," segir
Þorsteinn.
Framtíðin björt
Í gegnum árin hafa mörg vel heppnuð mót verið haldin á vegum Skíðafélags
Dalvíkur, þar á meðal þrjú landsmót sem öll hafa verið haldin í samvinnu við
Ólafsfirðinga. Raunar varð að flytja alpagreinar fyrsta mótsins í
Hlíðarfjall við Akureyri sökum snjóleysis í Böggvisstaðafjalli en norrænar
greinar fóru fram í Ólafsfirði. Síðari mótin tvö tókust ágætlega.
Eins og áður segir hafa skíðamenn frá Dalvík vakið athygli á landsvísu og nú
um stundir er einn fremsti alpagreinamaður landsins, Björgvin Björgvinsson,
að kveða sér hljóðs á alþjóðavettvangi. Öll þessi athygli dregur kastljósið
að skíðabænum Dalvik og segja Þorsteinn og Jón að framtíðin sé sannarlega
björt.
"Auðvitað er samkeppni milli skíðasvæða en við njótum líka nágranna okkar og
samstarfs. Til að mynda höfum við reynslu af því að þegar ekki er opið sökum
veðurs í Hlíðarfjalli þá er oft hægt að fara á skíði hér á Dalvík. Við eigum
ágætt samstarf við rekstraraðila í Hlíðarfjalli og sömuleiðis er ágætt og
vaxandi samstarf okkar og Ólafsfirðinga. Allt er þetta jákvætt. Skíðaáhugi
almennings er líka mikill og því er ástæðulaust annað en ætla að við eigum
eftir að sjá Skíðafélag Dalvíkur vaxa og dafna á komandi árum."
- Hvaða atriði teljið þið að skipi skíðasvæði Dalvíkinga framar öðrum?
"Vafalítið er það veðursældin. Hér er oft opið nálægt 100 dögum á vetri,
hefur mest farið upp í 137 daga. Það þykir gott á íslenskan mælikvarða."