29.05.2005
Hér á eftir kemur kafli úr skýrlu stjórnar frá aðalfundinum. Þar er meðal annars verið að fjalla um þann möguleika að setja upp snjókerfi á skíðasvæðinu á Dalvík.
Þar segir:
"Eins og fram hefur komið hér að ofan þá einkenndist rekstur skíðasvæðisins í vetur eins og marga aðra af snjóleysi. Það er því ljóst að við verðum að grípa til einhverra ráða til að tryggja rekstur svæðisins og eina ráðið er að sækja fram á við en ekki bíða eftir að skíðasvæðið verði lagt niður hægt og hljótt vegna snjóleysis.
Stjórn félagsins hefur síðustu vikur verið að kanna möguleika á því að sett verði upp snjókerfi í fjallið. Sá möguleiki er að okkar mati eini möguleikinn og vel framkvæmanlegur og tryggir áframhaldandi rekstur svæðisins. Snjókerfi kæmi einfaldlega í veg fyrir að við drægumst aftur úr öðrum skíðasvæðum sem hugsa sér til hreifings með snjóframleiðslu. Rætt hefur verið við aðila sem eru reiðubúnir til að koma með framlag í formi peninga í verkefnið og styðja okkur í að halda Dalvík á kortinu sem skíðabæ.
Þeir sem hafa tjáð sig um þessa hugmynd eru sammála okkur og vilja að við í Dalvíkurbyggð höldum því sem við höfum og þá að sjálfsögðu með framtíðina í huga.
Hins vegar er ljóst að fleiri sjónarmið eiga eftir að koma upp á yfirborðið þegar og ef ákvörðun um snjókerfi verður tekin og líklegt að við höfum bara heyrt í þeim jákvæðu.
Þeir sem hins vegar efast um framkvæmdina hafa fullan rétt á þvi en ég vil biðja þá að hugsa aðeins um að ef skíðasvæðið okkar verður snjólaust mörg ár í viðbót lokast það sjálkrafa og á hreinu að á þeim tímapunkti myndi skíðaiðkun í Böggvisstaðafjalli ljúka. Hvað hefðu þau 120 börn og unglingar sem stunda skíðin á fullu á veturna þá fyrir stafni? Því get ég ekki svarað.
Þá höfum við rætt þann möguleika að opna svæðið og hefja vertíðina strax í fyrstu snjóum á haustin og bregðast við snjóleysinu sem hefur hrjáð okkur seinni hluta hefðbundinnar skíðavertíðar, það er í mars og apríl. Hingað til hefur verið lágmarks opnun fyrir áramót og þar af leiðandi hafa til dæmis æfingar ekki hafist fyrr en í janúar. Með þessu breytingum myndu æfingar hefjast um leið og fyrstu snjóar kæmu á haustin"
Tilvitnun líkur.