Langar þig í stjórn skíðafélagsins?

Frá stjórn.

Senn líður að aðalfundi Skíðafélags Dalvíkur. Samkvæmt lögum skal hann haldinn í maí ár hvert. Á fundinum fer fram stjórnarkjör og eru stjórnarmenn kosnir til tveggja ára í senn þannig að þegar ártal er oddatala skal kjósa formann, ritara og meðstjórnanda en þegar ártal er slétt tala skal kjósa varaformann og gjaldkera. Í ár eru því formaður, ritari og meðstjórnandi í kjöri. Þeir sem hafa áhuga á að sitja í stjórn á árunum 2025-2027 eru beðnir að senda póst  skario@simnet.is fyrir 2.maí nk, hafi þeir áhuga eða geta bent á fólk sem vill sitja í stjórn. Stærsta verkefni stjórnar á næsta kjörtímabili er að klára byggingu aðstöðuhúss á svæðinu sem er vel á veg komin. Núverandi stjórn og framkvæmdastjóri hafa náð að safna 29.000.000 króna í bygginguna í samstarfi við velunnara félagsins. Ný stjórnin sem tekur við keflinu á aðalfundi þarf í samstarfi við framkvæmdastjóra að halda áfram að fjármagna húsið til þess að klára það. Gera verður ráð fyrir að amk 15.000.000 kr þurfi til að klára það og ætti það að takast ef mið er tekið af því hvernig gengið hefur hingað til.  Verkefnið er stórt og á pari við það sem stjórnum félagsins hefur tekist að koma í framkvæmd síðustu ár. Við hvetjum því þá sem eru til í að takast á við stór verkefni að gefa sig fram í stjórn félagsins. Önnur verkefni stjórnar eru barna og unglingastarf sem er gefandi og um leið áskorun, samráð og samstarf við nefndir félagsins og framkvæmdastjóra. Rekstur skíðasvæðisins í Böggvisstaðarfjalli er stórt verkefni sem gengur afar vel þó svo að skíðavertíðir eins og sú sem er að líða geri okkur lífið leitt. Þetta allt gerir félagið í farsælu samstarfi við Dalvíkurbyggð sem er ómetanlegur bakhjarl félagsins sem stjórn hverju sinni er mikið í mun að gangi vel og gott traust sé á milli aðila.

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur