Leiðari síðustu Norðurslóðar.

Hjörleifur Hjartarson skrifaði leiðara síðustu Norðurslóðar sem kom út í mars sl. Yfirskrift leiðaranns er, þrautseigar hvunndagshetjur í Skíðafélagi Dalvíkur. Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að í Svarfaðardal sem borið hefur sæmdarheitið "landsins mesta snjóakista" eins lengi og elstu menn muna, yrði slíkur hörgull á snjó að til vandræða horfði og til að mæta vandamálinu yrðu keyptur hingað tæknibúnaður upp á milljónatugi til að framleiða snjó. Tímarnir breytast og það sem þótti fjarstæða í gær er orðinn hversdagslegur veruleiki í dag. Þjóðfélagið breytist, menirnir breytast og m.a.s. veðráttan breytist. Skíðamót Íslands verður haldið í Böggvisstaðafjalli og á Ólafsfirði nú um helgina. Blikur hafa verið á lofti um hvort af mótinu getur orðið enda snjórinn í fjallinu sem óðast að hverfa að undanskilinni hinni mjóu vélgerðu snjóræmu meðfram lyftunni sem skíðafélagsmenn hafa lagt nótt við dag við að hlú að með öllum ráðum eins og sjáaldur augna sinna. Líklega eru nefndir skíðafélagsmenn á Dalvík einhverjir þrautseigustu, ósérplægnustu og harðfylgnustu eldhugar sem sögur fara af hér í byggðinni og þótt víða væri leitað. Uppbygging og rekstur skíðasvæðisins í Böggvisstaðafjalli er dæmisaga um hverju sannur áhugi og eldmóður fárra einstaklinga getur skilað einu samfélagi. Varla hefur nokkur félagsskapur annar lagt samfélaginu til fleiri stundir í sjálfboðavinnu en Skíðafélagið og skal þó ekki vanmetið allt það feikna mikla sjálfboðaliðastarf sem unnið er í hinum ýmsu félögum öðrum. Öll uppbyggingin í fjallinu sem að svo miklu leyti hefur verið unnin í sjálfboðaliðastarfi hefur haldið nafni Dalvíkur á lofti og gert skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli að einu að mest sóttu skíðasvæðum landsins. Skíðafélag Dalvíkur sér um rekstur skíðasvæðisins og eru víst flestir sammála um að það fyrirkomulag sparar sveitarfélaginu mikil útgjöld þegar á heildina er litið. Þá er eftir að geta þess þáttar starfsemi skíðafélagsins sem lýtur að uppeldi ungs skíðafólks. Sú staðreynd að Dalvískir skíðamenn eru svo áberandi meðal bestu skíðamanna landsins er engin tilviljun heldur árangur af áralöngu uppeldis- og þjálfunarstarfi skíðfélagsins. En þó margir góðir keppnismenn hafi sprottið upp fyrir tilstuðlan félagsins er ekki síður um vert það almenna uppeldisstarf sem þar hefur átt sér stað. Fjöldi barna og unglinga hafa þarna fengið gott líkamlegt og andlegt uppeldi sem skilar sér með einum eða öðrum hætti út lífið þó ekki leggi allur sá fjöldi skíðaíþróttina fyrir sig til langframa. Snjóbyssurnar í Böggvisstaðafjalli eru e.t.v. skýrasti vitnisburðurinn um ódrepandi þrautseigju skíðfélagsmanna. Jón Halldórsson beitti sér fyrir því fyrir hálfum öðrum áratug eða svo að flytja til landsins snjóbyssu og uppskar í besta falli góðlátlegt grín meðal þjóðarinnar. En tíminn og þolinmæðin vann með málstaðnum. Eftir enn einn endasleppan skíðavetur í fyrra stóðu menn frammi fyrir þeim kostum að annað hvort setja upp þennan búnað eða treysta á Guð og sígandi lukkuna um alla framtíð varðandi rekstur skíðasvæðissins og þeirra miklu fjárfesinga sem þar liggja. Ákveðið var að fara í þessa dýru framkvæmd og skíðamót Íslands sem fram fer um helgina er óyggjandi sönnun þess að sú ákvörðun var rétt. Án snjóframleiðslukerfisins væri skíðamótið óhugsandi. Og að lang stærstum hluta er framkvæmdin fjármögnuð með gjafafé frá aðilum sem eins og skíðafélagsmenn láta sér annt um framtíð skíðaiðkunar í Böggvisstaðafjalli Á meðan svo er getur bæjarfélagið veitt af sínu takmarkaða ráðstöfunarfé til annarra málefna. Dalvíkurbyggð nýtur góðs af því að hafa menn á borð við forkólfa skíðafélagsins að störfum án þess að þiggja kaup fyrir það. Starf þeirra hefur skilað ríkulegum árangri sem ber að þakka. Norðurslóð tekur fyrir sitt leyti ofan fyrir hinum ólseigu hvunndagshetjum í Skíðafélagi Dalvíkur og hvetur bæjarbúa til að gera slíkt hið sama.