Opnunardagarnir orðnir 75 það sem af er vetri.

Nú hefur Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli verið opið í 75 daga á þessari skíðavertíð eða frá 3. nóvember. Fram að áramótum var opið í 17 daga og frá áramótum hefur verið opið í 58 daga. Aðsókn hefur verið góð og hingað hafa komið margir hópar í vetur bæði skólar og félagsmiðstöðvar og von er á hópum hingað allar helgar fram að páskum. Heimamenn hafa líka verið duglegir að mæta á skíði í vetur og sala árskorta hefur verið með besta móti, hafa verið seld yfir 200 árskort sem er um 10% af íbúum Dalvíkurbyggðar. Hjá félaginu eru um 120 börn og unglingar á æfingum og í kennslu sem er með því mesta hingað til. Þó svo að þessa dagana sé með hlýrra móti erum við full bjartsýni því við trúum og treystum á veðurspekingana á Dalbæ en þeir segja okkur að það eigi eftir að snjóa vel á næstu vikum. Það verður því góð viðbót að fá einn skammt af snjó þó svo að í Böggvisstaðafjalli sé nægur snjór eins og er en alltaf er gott að hafa meira en minna af blessuðum snjónum.