Skýrsla stjórnar 2023-2024

Hér má lesa skýrslu stjórnar fyrir árið 2023-2024

 

Skýrsla stjórnar 2023-2024
Aðalfundur Skíðafélags Dalvíkur var haldinn í Menningarhúsinu Bergi, 23.maí 2023.
Stjórn:
Stjórn félagsins var skipuð eftirtöldum aðilum:
Óskar Óskarsson var kosinn formaður til tveggja ára.
Hanna Kristín Gunnarsdóttir var kosin ritari til tveggja ára.
Sigurður Kristinn Guðmundsson var kosinn meðstjórnandi til tveggja ára. Guðni Berg Einarsson bauð sig einnig fram.
Björk Hólm var ekki í kjöri en er á seinna ári sem varaformaður
Elísa Rán Ingvarsdóttir var ekki í kjöri en er á seinna ári sem gjaldkeri.
Fastanefndir:
Í fastanefndum sátu þessir:
Alpagreinanefnd: Skafti Brynjólfsson og Snæþór Arnþórsson.
Foreldrafélag: Lára Bettý Harðardóttir, Katla Ketilsdóttir,
Guðrún Anna Óskarsdóttir og Sunna Björk Bragadóttir
Mótanefndir: Mótanefndir eru tvær. Önnur fer með heimamótin og Jónsmót og í henni eru Daði Valdimarsson, Snæþór Arnþórsson, Hildur Birna Jónsdóttir, Kristján Þorvaldsson og Sveinn Torfason. Hin mótanefndin sér um stærra mótahald, FIS og bikarmót. Í henni eru Sveinn Brynjólfsson, Sveinn Torfason, Bjarni Valdimarsson, Skafti Brynjólfsson og Óskar Óskarsson. Þó nefndirnar séu tvær vinna þær sameiginlega að mótahaldinu.
Skoðunarmenn reikninga: Þorsteinn Skaftason og Brynjólfur Sveinsson
Stjórnun félagsins/framkvæmdarstjóri.
Stjórn fundaði 20 sinnum frá síðasta aðalfundi. Það sem af er ári hefur stjórn fundað 10 sinnum. Eins og fram kom í síðustu skýrslu þá breytti starf Harðar Finnbogasonar framkvæmdarstjóra félagsins miklu sem varð til þess að fækka fundum stjórnar verulega. Starf Harðar sem framkvæmdarstjóra er félaginu mjög mikilvægt á öllum sviðum. Þar má nefna markaðssetningu og samskipti við okkar helstu bakhjarla sem og Dalvíkurbyggð.


Verkefni stjórnar og félagsins á milli aðalfunda.

Þegar skíðavertíðinni lauk vorið 2023 þá kom endanlega í ljós það sem við sáum stefna í frá því um miðjan mars að peningastaðan varð erfið. Framan af vetri leit út fyrir að staðan væri í þokkalegu lagi en eins og áður sagði versnaði afkoman þegar leið á veturinn. Engin ein ástæða orsakaði þetta. Öll útgjöld voru einfaldlega meiri og svo setti þriggja vikna ótíð sitt hvoru megin við mánaðarmótin janúar- febrúar strik í reikninginn. Þá fóru páskarnir nánast í vaskinn með tilheyrandi tekjumissi. Ný stjórn og framkvæmdastjóri lögðu töluverða vinnu í að greina stöðuna og sáu fátt annað en leyta til Dalvíkurbyggðar eða að öðrum kosti draga mjög úr starfseminni og í versta falli hefja ekki starfsemi fyrr en í janúar 2024. Þá var starf framkvæmdastjóra klárlega í hættu sem við vissum að yrði mikið högg fyrir starfsemina og í raun mikið bakslag miðað við hvernig starf hans hefur þróast félaginu í hag. Í stuttu máli þá fól stjórn Herði að vinna í málinu með Dalvíkurbyggð sem endaði farsællega með framlagi Dalvíkurbyggðar sem dugði til að halda óbreyttri starfsemi út árið með sama fyrirkomulagi og árin á undan. Þetta leiddi þó af sér að við ákváðum að framkvæmdir og viðhald yrðu í lágmarki fram að næstu vertíð. Þá samþykkti stjórn að fela Herði að finna leið til að draga saman í rekstri um allt að 5% á skíðavertíðinni 2023-2024. Eins og eflaust flestir vita þá er auðveldast að draga saman í troðslu brekkna til að spara peninga og var það líklega það sem var sýnilegast og var í raun ákvörðun stjórnar að gera. Mannskapsmál eru óhagganleg vegna reglna um lágmarksmannskap á skíðasvæðinu. Það jákvæða sem beið nýrrar stjórnar var að hefja byggingu geymsluhúsnæðis sumarið 2023. Fjármagn var komið í fyrsta áfanga og var stefnan að fara í jarðvinnu og reyna að steypa sökkla og plötu um sumarið. Húsið sjálft sem er stálgringarhús yrði síðan reist 2024. Nánar um það undir uppbygging, framkvæmdir og verkefni framundan.


Viðhald og endurbætur:

Eins og fram kom hér á undan var lítið fjármagn til framkvæmda en hefðbundið viðhald fór fram á lyftum og öðrum búnaði. Þar var aðallega um slit á búnaði að ræða sem var lagfært.
Snjótroðarann var í ágætu lagi vorið 2023 og í raun það eina sem þurfti að gera við hann var tjakkurinn á fræsaranum. Sú viðgerð var unninn í sjálfboðavinnu og Slippurinn gaf þá vinnu sem þurfti við viðgerðina. Við vissum að fyrir lá að fara í viðhald á fræsaranum sem varla hefur þurft viðhald í 18 ár. Alla flapsa á fræsaranum þurfti að endurnýja og þá voru brettin á honum orðin mjög léleg. Í vetur var síðan farið í að fá verð í það sem vantaði en þá kom í ljós að kostnaðurinn var að lágmarki 5 milljónir. Þá fréttum við af nánast ónotuðum fræsara sem var á troðara í Ólafsfirði sem hefði lent í altjóni en fræsarinn var ekki á honum og slapp því við skemmdir. Við sáum því að eina vitið var að reyna að fá hann keyptan í heilu lagi sem tókst og greiddum við 3 milljónir fyrir hann. Snjósleðinn var endurnýjaður enda búið að keyra hann 5000 km og komið að viðhaldi. Annar eins sleði var keyptur sem búið var að keyra 20 km. Unnið var í viðhaldi og viðgerðum á snjógirðingum og bætt við girðingum þar sem frá var horfið sumarið 2023.


Uppbygging, framkvæmdir og verkefni framundan:

Hvað varðar byggingu troðara- og geymsluhúsnæðis á skíðasvæðinu þá samþykkti sveitarstjórn í byrjun árs 2023 að setja 28.000.000 kr í fyrsta áfanga en það mál tók nýja stefnu rétt eftir aðalfundinn 2023. Stjórn ákvað að nefna við nýja sveitarstjórn hvort ekki væri vitlegt að fara aðeins yfir málin áður en við hæfumst handa við að byggja fyrirhugaða skemmu sem í raun var ekki það sem við óskuðum okkur í upphafi. Skemma á þessu svæði hefði á engan hátt passað inn í umhverfið en okkur tókst ekki að koma hugmyndinni um hús sunnan Brekkusels í gegn á sínum tíma. Hugmyndin byggðist á því að byggja hús sem yrði grunnur að stækkun Brekkusels í framtíðinni og verönd fyrir Brekkusel sem sárlega hefur vantað. Í stuttu máli þá tóku bæjaryfirvöld vel í að skoða þetta mál og úr varð að skipuð var 4
manna nefnd, tveir frá skíðafélaginu og tveir frá Dalvíkurbyggð til að gera tillögu að því hvernig hús yrði byggt á svæðinu. Sveitarstjórn ákvað að félagið mætti verja hluta af því framlagi sem komið var í bygginguna fyrir árið 2023 í að láta teikna, hanna og gera burðarþols teikningar af húsi sem kæmi sunnan Brekkusels en ljóst var í upphafi að það kostaði umtalsvert vegna þess að erfitt var að fara ekki alla leið til að sjá raunkostnað. Teiknistofran AVH tók að sér að hanna og teikna húsið og skiluðu þau fyrstu tillögu í byrjun nóvember. Nefndin var á einu máli um að leggja til að byggt yrði eftir tillögu AVH. Nefndin mætti í framhaldinu á fund Byggðarráðs 16. nóvember og kynnti hugmyndina fyrir ráðinu. Í framhaldi af þessum fundi fóru hjólin að snúast og samþykkti sveitarstjórn í framhaldinu tillöguna. Íþrótta- og æskulýðsráð fjallaði í framhaldinu um málið á fundi í febrúar og lagði til að 60.000.000 kr. yrðu settar í bygginguna á þessu ári og stefnt yrði að því að klára þessa framkvæmd á árinu 2026. Á fundi sveitarstjórnar 16. apríl var síðan samþykkt að framlag Dalvíkurbyggðar í verkfnið yrði 150.000.000 kr. Kostnaðaráætlun er rúmar 188.000.000 kr. Niðurstaðan er því sú að fjölnotahús verður byggt á skíðasvæðinu sem eru frábærar fréttir. Frá upphafi þá hefur verið rætt í stjórn félagsins að framlag félagsins gæti verið allt að 10 - 15% og síðan yrði nýtt VSK frumvarp sem á að gera félugum kleyft að fá VSK endurgreiddan af vinnu á verkstað. Eins og staðan er í dag þá virðist ekki auðvelt að fá VSK endurgreiddan þrátt fyrir að nýtt VSK frumvarp hafi litið dagsins ljós. Það er í raun gert ráð fyrir að félög framkvæmi fyrir sjálfsaflafé en ekki framlög frá til dæmis sveitarfélugum. Áætlanir okkar gerðu ráð fyrir amk 15.000.000 kr í formi endurgreiðslu VSK. Þessi mál eru enn í skoðun þegar þetta er skrifað. Við stefnum samt sem áður á að koma húsinu upp og loka því í nóvember nk.

Skíðavertíðin 2023-2024

Eins og haustið 2022 þá lét snjórinn bíða eftir sér og ekki tókst að opna skíðasvæðið 1.desember eins og til stóð og hófst snjóframleiðsla á auða jörð 4 .desember og var framleiddur snjór í alla neðri lyftubrekkuna í samtals 10 sólarhringa. Þann 20 .desember var neðri lyftan síðan opnuð og sú efri 30.desember. Aðstæður voru ekki ólíkar síðasta vetri en lítið snjóaði framan af. Svæðið kom smá saman inn og gerðu snjógirðingar þar gæfu muninn samhliða snjóframleiðslunni. Á endanum urðu aðstæður eins góðar og kostur er og við höfðum nægan snjó fram að vertíðarlokum en svæðinu var lokað 23. apríl en 10 dögum þar á undan var dregið verulega úr þjónustu og mannskap fækkað. Ekki var hjá því komist að nýta góðar aðstæður í vor og var því ákveðið að vera með voræfingar fyrir 12 ára og eldri til 10. maí. Frá 26. desember var gönguspor troðið með sleða og í framhaldinu með troðaranum þegar aðstæður bötnuðu. Sporið sem er allt að 6 km langt var troðið á hverjum degi þegar aðstæður leyfðu. Áhugi á gönguskíðum fer vaxandi og um leið fer áhuginn á því að nota sporið vaxandi. Misjafnt er hvort notendur borgi fyrir þjónustuna sem er miður en stór hluti þeirra sem nota sporið borga þó samviskusamlega. Nánast ekkert var um bilanir á búnaði svæðisins í vetur nema í blá lokin. Þá bilaði kúpling í efri lyftunni sem varð til þess að lyftan varð ónothæf. Eftir töluverðar vangaveltur og upplýsingar frá framleiðanda var ákveðið að reyna að gera við kúplinguna sem var alls ekki víst að tækist en það heppnaðist og með því spöruðust 1.200.000 kr. Verkið var unnið í sjálfboðavinnu og með aðstoð Slippsins á Akureyri. Þá liggur fyrir að skipta þarf um legur í efra hjólinu á efri lyftunni fyrir næstu vertíð. Það verk er töluverð fyrirhöfn en að stærstum hluta vinna sem verður unnin í sjálfboðavinnu eins og hægt er.
Opnunardagar í vetur voru 97 fyrir almenning en opið var fyrir æfingar fram að Andrés. Gestir svæðisins voru tæplega 10.000 eins og síðasta vetur.


Tekjur á vertíðinni:

Skidata 14.071.773
Sjoppa 1.752.707
Hópar utan skidata 2.022.042
Samtals 17.846.522 krónur
Tekjur af hverjum gesti í vetur voru því 1.810 kr. sem er 110 kr. hærra en á síðasta ári sem er mjög jákvæð þróun.
Hér má sjá hvernig málin þróuðust í vetur.
4. des, snjóframleiðsla hefst og framleitt var í 10 sólarhringa í vetur.
20. des, var neðri lyftan opnuð.
30. des, var efri lyfta opnuð.
26. des, fyrsti í gönguspori var 20. des og var sporað með sleða.
14. apríl, síðasti opnunardagur fyrir almenning.

Viðburðir á vegum svæðis.

Það voru haldin 3 skíðanámskeið fyrir fullorðna og sóttu alls 20 manns þessi 3 námskeið.
Byrjendanámskeið fyrir börnin.
Páskadagskráin var á sínum stað með opnunarpartý fyrsta daginn með diskóljósum og gleði.
Æfingabúðir skí á snjóbrettum í janúar sem tókust mjög vel.
Síðasti opnunardagur fyrir almenning var 14. Apríl.
Opið fyrir æfingar fram að Andrés, almenningur gat farið á skíði en engin þjónusta.
Hörður Finnbogason er framkvæmdarstjóri félagsins en auk hans unnu á svæðinu Júlíus Gunnar Bóasson svæðisstjóri, Steinþór Wendel, Ján Hlavaj, Jónas Þór Leifsson og Reynir Magnússon. Afleysingafólk var síðan um helgar eftir þörfum.

Þjálfun og skíðakennsla.
Eins og venjan er fara þjálfarar yfir veturinn síðar í skýrslunni. Snjóleysið í desember gerði það að verkum að æfingar samkvæmt æfingatöflu hófust ekki fyrr en í janúar, bæði í alpagreinum og á brettum. Þátttaka á æfingar hjá félaginu hefur líklega ekki verið meiri en þessa skíðavertíð eða samtals 142 iðkendur sem við erum afar stolt af. Við erum nokkuð viss um að því er að þakka að þjálfarateymi félagsins er samansett af mjög hæfileikaríku fólki sem gefur allt sitt í að láta allt ganga upp. Það er ekki sjálfgefið að halda í slíkann mannskap og ljóst að við verðum stálheppin ef okkur tekst það sem í dag er ekki ljóst. Lítið þarf að koma upp á til þess að þjálfarar ákveði að draga sig í hlé. Margt getur komið til sem veldur því að við höldum ekki okkar öfluga fólki. Það er klárlega áhyggjuefni fyrir skíðaíþróttina á Dalvík sem er í miklum blóma. Þjálfarar hjá félaginu í alpagreinum og á brettum í vetur voru Sveinn Torfason, Harpa Rut Heimisdóttir, Sólrún Anna Óskarsdóttir, Hjörleifur Einarsson, Ján Hlavaj og Vincent Drost var brettaþjálfari. Aðstoðarfólk í yngstu hópunum aðstoðuðu þjálfara eftir þörfum. Stjórn þakkar þeim fyrir vel unnin störf í vetur.
Eins og síðustu ár var samstarf stjórnar, framkvæmdarstjóra, starfsmanna og þjálfara mjög gott í vetur.

Mót og aðrir viðburðir 2023:


Rétt er að geta þess að áform um að fjárfesta í þráðlausum tímatökutækjum varð að veruleika sem er stökk inn í framtíðina í tímatöku. Tímatökuliðið okkar lagði mikla vinnu í að koma tækjunum í gang fyrir vertíðina sem tókst að mestu og er enn verið að vinna að. Mikil breyting er að hafa slík tæki sem gefa okkur möguleika á að halda mót hvar sem er í fjallinu. Línur í jörð ráða ekki lengur hvar við höldum mót. Þær hins vegar verða að vera í lagi þegar að stærri mótum kemur. Sveinn Torfason hafði umsjón með þessum kaupum í samráði við stjórn og þökkum við honum fyrir hans framlag í þessari uppfærslu í tímatökumálum félagsins.

FIS ENL mót fór fram dagana 16-17 febrúar við góðar aðstæður. Keppt var í bæði svigi og stórsvigi og gekk mótahaldið vel.

Árlegur viðburður í mótahaldi félagsins er Jónsmótið sem fór fram í 26 sinn. Mótið fór að þessu sinni fram dagana 1.-3. mars. 191 keppandi mætti til leiks sem sýnir að mikill áhugi er fyrir þessu móti og mæta öll félög landsins sem eru með keppendur í þessum aldursflokki.

Dalvíkurmótið var haldið í tvennu lagi og var góð þátttaka í öllum aldursflokkum.
Mótahald Skíðafélags Dalvíkur er öflugt og erum við staðráðin í að halda því áfram, halda bæði innanfélagsmót, bikarmót og FIS/ ENL mót.

Lokahóf

Lokahóf Skíðafélags Dalvíkur fór fram á skíðasvæðinu 1. maí. Nægur snjór var á svæðinu og því tilvalið að slútta vetrinum þar. Þar sem firmakeppnin gat ekki farið fram á öðrum degi páska eins og hefðbundið er þá var hún haldin samhliða lokahófinu. Þeir sem voru á brettaæfingum í vetur sýndu listir sínar í barnabrekkunni og í lokin voru grillaðir hamborgarar. Þetta fyrirkomulag heppnaðist mjög vel en oftar en ekki eru aðstæður orðnar erfiðar á þessum árstíma.

Hefðbundnir fundir og ráðstefnur síðasta ár:

Félagið tók þátt í eftirfarandi fundum og viðburðum. Haustfundur Samtaka skíðasvæða, Skíðaþing, formannafundur UMSE, Ársþing UMSE, vorfundur íþrótta- og æskulýðsráðs og fundir sem tengjast rekstrinum og uppbyggingu þess.

Fastanefndir félagsins og verkefni sem eru árleg:

Foreldrafélagið, alpagreinanefnd og mótanefnd höfðu í nógu að snúast í vetur og skiluðu sínu verki mjög vel. Eins og undanfarin ár sá alpagreinanefnd um ráðningu þjálfara í samvinnu við stjórn og framkvæmdastjóra og uppsetningu æfingatöflu og umgjörð æfinga í vetur. Það skipulag er gert í samráði við þjálfara og gefst vel. Samvinna stjórnar og framkvæmdastjóra við foreldrafélagið er mjög gott. Þeirra helsta verk yfir skíðavertíðina er skipulag fjáraflanna og þá sér það um skipulag keppnisferða og upplýsingamiðlun til foreldra og barna. Stærsta fjáröflun foreldrafélagsins er dósasöfnun og umsjá og skipulag um það verkefni sem er börnum í skíðafélaginu afar mikilvægt. Þessi fjáröflun hefur gert það að verkun að mikið og margt er hægt að gera fyrir iðkendur í félaginu. Þeir sem setja dósir í dalla foreldrafélagsins sjá afraksturinn á samheldninni sem myndast hjá þeim sem þar koma að, bæði börn og foreldrar. Við þökkum öllum sem setja dósir í dallana kærlega fyrir.

Samantekt þjálfara veturinn 2022-2023

 


Leiktími
Leiktímar vetrarins hófust 8. janúar, leiktímar eru ætlaðir leikskólabörnum 4-5 ára.
Í upphafi voru einungis þau börn sem höfðu verið í leiktímum veturinn áður, fædd 2018. Þegar börnin sem tóku þátt í byrjendakennslunni voru orðin að mestu sjálfbjarga á skíðunum komu þau inn í leiktíma.
Í heildina voru í kringum 25 börn sem sóttu leiktíma í vetur og gengu þeir heilt yfir vel, lagt er upp með að tímarnir séu fjörugir og fjölbreyttir, með m.a. leikjabraut, stórsvigsbraut, leikjum og “ævintýraferðum” upp á topp.
Það er aðdáunarvert að fylgjast með hvað leiktímahópnum fer mikið fram á skíðatímabilinu.
Í leiktímunum í vetur aðstoðuðu fjórir unglingar sem eru að æfa skíði, Valgerður Fríður, Eyrún Hekla, Hörður Högni og Viktor Logi. Þau skiptu með sér viku og viku, voru tvö í tíma í senn og stóðu sig með prýði í vetur.
Leiktímarnir enduðu með lokahófi 22. apríl sem haldið var upp í Brekkuseli. Foreldrafélagið sá um að grilla pylsur fyrir hópinn í lok tímans.
Samskipti og upplýsingagjöf til foreldra fór að mestu fram í gegnum „Sportabler“.
Takk fyrir veturinn. Sóla, Ján, Valgerður, Eyrún, Hörður og Viktor

1-2 bekkur - Þjálfarar Sóla og Ján Hlavaj

Æfingar vetrarins hófust 4. janúar og voru tvisvar í viku á mánudögum og fimmtudögum frá 17:30 - 18:30. Fjöldi iðkenda var í kringum 31 á breiðu getustigi, við lögðum m.a. upp með að hafa fjör og leiki, stórsvigsbrautir/svigbrautir í stöngum og stubbum, frískíðun og skemmti ferðir um fjallið okkar. Fórum í æfingaferð inn í Hlíðarfjall fyrir Andrés laugardaginn 13. apríl, fengum að kíkja á æfingu hjá SKA hjá sama aldurshóp og tókum nokkrar ævintýraferðir um fjallið og prufuðum stólalyftuna. Ferðin og skipulag hennar gekk mjög vel með góðri samvinnu við foreldra barnanna.
Haldið var Dalvíkurmót í ár sem var skemmtilegt og kepptu þau í stórsvigi ásamt Firmakeppni í lok vetrar. Það fóru flestir iðkendur úr 1-2 bekk á Andrésar Andar leikana og gekk það mjög vel.
Fella þurfti niður töluvert af æfingum í vetur vegna veðurs.
Frábært að fylgjast með framförum hjá hópnum á skíða tímabilinu eins hvað er mikill áhugi og góð þátttaka á æfingum í vetur.
Samskipti og upplýsingagjöf til foreldra fóru að mestu fram í gegnum appið „Sportabler”.
Takk fyrir veturinn
Sóla og Ján

3. og 4. Bekkur 2024 Þjálfarar í ár voru Hjörleifur og Jan.

Æfingar hófust eftir jól og tókum við þrjár æfingar í desember, síðasta æfingin var síðan þriðjudaginn 23. apríl, daginn fyrir setningu andrésar andar leikanna.
Í vetur æfðum við þrisvar sinnum í viku, á þriðjudögum, miðvikudögum og föstudögum. 18 iðkendur voru skráðir á æfingar og aðeis þrír - fjórir sem ekki æfðu alla dagana. Iðkendur voru á öllum getu stigum, allt frá því að vera með þeim bestu á landinu til þess að vera á sínum fyrsta alvöru æfinga vetri. Allir sýndu miklar framfarir.
8 æfingar féllu niður í vetur, aðallega vegna veðurs en einnig ein æfing vegna árshátíðar Dalvíkurskóla.
4 bekkur tók þátt í jónsmóti sem fram fór í byrjun mars. Þar áttum við fjóra þáttakendur og stóð uppúr árangur Gríms en hann varð jónsmótsmeistari í svigi og stórsvigi, en stelpurnar þrjár stóðu sig einnig með prýði.
Um miðjan apríl barst okkur svo liðsauki frá Bandaríkjunum þar sem Roger og fjölskylda komu og æfðu með okkur síðustu tíu dagana fyrir andrés. Tvíburarnir Sydney og Mickey æfðu með okkur og komu svo að endingu með okkur á andrés.
Á fimmtudeginum kepptu 3 og 4. Bekkur hvor á eftir öðrum í Hjallabrautinni í Hlíðarfjalli. Það gerði það að verkum að báðir þjálfarar gátu fylgt hópunum allan daginn. Á föstudeginum kepptu 3 og 4 bekkur hins vega í sitthvorri brekkunni á sama tíma og því var Jan með 3 bekk í Hjallabraut og Hjörleifur með 4 bekk. Báða dagana gekk allt vel í megin dráttum þó sumir iðkenndur væru ekki alveg par sáttir við sína framisstöðu. Það sem uppúr stendur eftir þessa andrésarleika er að flestir lærðu og prófuðu eitthvað nýtt, hegðun var til fyrirmyndar og drengileg framkoma var í hávegum höfð.
Hjörleifur og Jan

Samantekt á vetrinum 2023/2024 Hópur 10 og 11 ára

Skíðavertíðin að þessu sinni byrjaði með tveimur æfingum að mig minnir milli jóla,-og nýars. Skipulagðar æfingar hófust svo samkvæmt æfingatöflu 2. janúar. Æfingakerfið Sportabler var notað til upplýsinga um skipulag æfinga og samskipti við foreldra. Samstarf þjálfara og annarra starfsmanna svæðisins var mjög gott sem endra nær og lögðu allir sitt að mörkum til að gera það besta úr hlutunum hverju sinni. Veturinn var frábær í alla staði og aðstæður á svæðinu eins og þær gerast bestar.
Skipulagðar æfingar byrjuðu eins og fram hefur komið þann 2. janúar við nokkuð góðar aðstæður og enduðu þann 23. apríl einnig í frábærum aðstæðum miðað við árstíma og fyrri ár. Æfingar þessa hóps voru 4 sinnum í viku, þrjá virka daga og laugardag í einn og háfan klukkutíma í senn. Alls 6 klukkustundir á viku. Tvær æfingar féllu niður vegna snjóframleiðslu, en þá skellti hópurinn sér í staðinn í íþróttahúsið í bandý á æfingatíma sem var vel sótt. Einungis fjórar æfingar féllu niður hjá þessum hópi allt æfingatímabilið janúar til apríl vegna veðurs sem er hrikalega gott miðað við síðastliðin ár. Þá tók hópurinn létta sundæfingu fyrir Jónsmótið og auka æfingu fyrir Andrés, ásamt extra langri æfingu á gistikvöldi hópsins. Allt uppbrot þótti krökkunum mjög gaman og var ánægja með. Iðkendur hópsins voru 21 talsins og á tiltöllulega jöfnu getustigi. Frábærlega samheldinn og skemmtilegur hópur í alla staði. Ég sá ein um þennan hóp og gékk mér vel að nýta og efla krakkana til aðstoðar bæði fyrir og eftir æfingar þegar brautarlögn var gerð. Tel ég það vera góða æfingu fyrir krakkana, auka samheldni þeirra, hjálpsemi og dugnað. Meðaltals mæting hópsins var milli 75-80%. Líkt og síðastliðin ár var í upphafi vetrar lögð áhersla á allskonar tækni-, grunnæfingar og hópefli. Áherlsa var lögð á stöðugleika og jafnvægi í gegnum frí-skíðun og fjölbreyttar brautauppsetningar (model), stórsvigsbrautir, svigbrautir, leikjabrautir, samhliðarsvig, leiki og skemmtun. Þá var landslag og snjólög nýtt hverju sinni til fjölbreyttrar þjálfunar, ævintýraferða, utanbrautarskíðunar og fleira. Allt fjallið var nýtt þegar tækifæri gáfust til! Löngulautarferðir voru afar vinsælar í lok æfinga á góðum dögum hjá þessum hópi enda leikgleðin enn mikil hjá þessum aldurshóp og mikilvægt að halda í. Hópurinn fékk að spreyta sig á æfingu með elsta hóp og keyrðum við þónokkrar ,,keppnislíkar” æfingar með starti og tímatöku.


Hópurinn fékk gistikvöld í Brekkuseli líkt og undanfarin ár (góður undirbúningur fyrir bikarmót að ári) sem heppnaðist vel í alla staði og var frábært hópefli fyrir krakkana. Markmiði var samvera og samskipti og innihélt gistikvöldið meðal annars tvær ólíkar skíðaæfingar og endaði með svigikeppni á Dalvíkurmóti. Þá var Pizzaveisla, skíðaleikir, krakka kviss, Hörpu bingó, gauralæti, skvísuskrækir, kúr og kósýheit. Lýstu bæði börn og foreldrar ánægju sinni með gistikvöldið.

Til gamans má einnig geta þess að á Öskudaginn héldum við ,,sleðarallý” í barnabrekku. Reynsla mín í gegnum árin hefur sýnt mér að það eru allir orðnir frekar lúnir eftir rölt dagsins og drifkrafturinn lítill í að þurfa að drífa sig á hefðbundna æfingu fljótlega eftir að heim er komið. Þá er bara eitt í stöðunni að reyna að gera eitthvað eftirminnilegt og skemmtilegt sem höfðar til krakkanna og þau hafa orku í. Þau fengu því skilaboð um að mæta með stígasleða á æfingu þennan daginn og var full mæting. Með Hörð svæðistjóra með mér í liði fengu þau að fara á sleðunum upp lyftuna að 3 mastri og renndu sér í tvennskonar sleðarallýbrautum á stígasleðum niður, þetta varð eftirminnilegt og mjög skemmtilegt fyrir krakkana. Mér þótti vænt um hversu þakklàt og ánægð börnin voru eftir slíka æfingu. Allt svona uppbrot býr til svo skemmtilegar minningar fyrri þau! Þau verkefni/mót sem þessum hóp stóð til boða voru, Dalvíkurmót, Jónsmót, Firmakeppni og Andrésarandarleikarnir. Góðfúsleg ábending til mótanefndar varðandi verðlaun á Dalvíkurmóti. Mín skoðun er sú að hjá þessum hópi 10-11 ára ættum við að fylgja verlaunarfyrirkomulagi bæði Jónsmóts og Andrésarleika og verlauna hvern árgang fyrir sig en ekki að steypa saman tvö árganga eins og gert var t.d í ár. Þetta er okkar mót og okkar eina mót fyrir þennan aldurshóp utan Jónsmótsins og mér finnst við alveg mega gera það vel er snýr að verlaunum. Þó það komi fyrir að einhverjir árgangar séu fámennir þá getur það lyft ansi mörgum á
hærra plan að vinna til verlauna bara hér heima. Endilega mótið betri stefnu í þessum málum. Nokkur barnanna unnu til glæsilegra verðlauna bæði á Jónsmóti og Andrésarandarleikunum. Gríðarlega efnilegir og flottir krakkar í þessum hópi og þau fremstu á landsvísu í bæði drengja og stúlknaflokki. Þá unnu margir persónulegra sigra og sýndu góðar framfarir frá síðasta ári, allir lögðu sig fram og gerðu sitt besta. Ekki náðist að fara í dagsferð í Tindastól líkt og viðburðadagatal gerði ráð fyrir þvímiður. Veður var oft risjótt um helgar í vetur og allskonar önnur verkefni sem uðru þess valdandi að ekki var farið.
Að lokum er ég stolt og þakklát þessum flotta hópi sem ég þjálfaði í vetur, hversu kröftug, dugleg og samviskusöm þau stunduðu æfingarnar sínar. Mæting hópsins, árangur og metnaður var að mínu mati afburða góð og gaf það mér sem þjálfara öflugan drifkraft og endurgjöf. Tíminn mun hinsvegar leiða það í ljós hvort ég sjái fyrir mér frekari þjálfun hjá félaginu eftir leiðinlegar ásakanir í minn garð frá foreldri innan hópsins á síðustu æfingu vetrarins. Það var óneitanlega sárt eftir afar farsæla þjálfun þessa aldurshóps og fleiri til margra ára hjá félaginu. Langar mig að koma þakklæti til stjórnar fyrir afskipti og stuðning í því máli. Skíðafélag Dalvíkur má svo sannarlega vera stolt af sínu uppbyggilega starfi og utanumhaldi í þjálfun, og öllum þessum flotta hóp iðkenda sem æfa hjá félaginu á öllum aldri. Megi barna-, og unglingastarf félagsins halda áfram að blómstra. 7. maí 2024 Harpa Rut Heimisdóttir.


Samantekt skíðavertíðarinnar 2023/2024. 12 ára og eldri. Þjálfari Sveinn Torfason.

 

Veturinn var að mínu mati nokkuð góður sé litið til aðstæðna og veðurfars. Þrátt fyrir að ekki mikill snjór hafi verið stórann hluta úr vetrinum, voru aðstæður þó mjög góðar til æfinga og keppni og má það þakka starfsmönnum skíðasvæðisins. Óvenju margar æfingar féllu þó niður í ár í samanburði við sl. ár, en það var helst vegna veðurs. Upphaf skíðavertíðarinnar hjá elsta æfinga hópnum var í byrjun ágúst en þá byrjuðu þrekæfingar. Boðið var upp á eina æfingu í samstarfi við CDALVIK, þá sáu þær Íssól og Íris um eina æfingu úti og um miðjan september bættist ein inni-æfing við í Íþróttahúsinu í umsjón undirritaðs. Þannig að frá miðjum september og fram í byrjun desember var boðið upp á 3 þrekæfingar í viku. Að meðaltali mættu um 16 krakkar á þessar þrekæfingar. Á vordögum 2023 ákvað þjálfari í samráði við alpagreinanefnd SkiDalvik að byrja að skipuleggja æfingaferð erlendis, en hefð hefur verið á því að bjóða upp á slíka ferð á odda-ári, en hópurinn fór einnig slíka æfingaferð 2022 þar sem ferðin féll niður 2021 vegna Covid. Góðar undirtektir voru hjá foreldrum og iðkendum. Í ferðina fóru 23 iðkendur, 18 foreldrar og einn þjálfari. Var það samhljóða álit allra sem í ferðina fóru að vel hafi tekist til. Farið var með rútu frá Dalvík - Keflavík aðfaranótt 9 desember skíðað í 7 daga í Hafjell og síðan var hópurinn sóttur í Keflavík og keyrt heim þann 16.desember.

Megin markmið ferðarinnar var að lengja skíðatímabilið ásamt því að “hrista” hópinn saman. Alls var skíðað í 7 daga við mjög góðar aðstæður. Æfingamagnið var 28 klst sem skiptist ca 30% í brautarskíðum og 70% í frískíðun. Kostnaður pr. Þátttakanda í ferðinni var um 250 þúsund. En krakkarnir söfnuðu sér að mestu fyrir ferðinni með ýmsum fjáröflunarleiðum. Skíðaæfingar hófust svo á Dalvík 28.desember þar sem við náðum þremur æfingum fyrir áramót, en samkvæmt útgefinni æfingatöflu hófust æfingar 3. janúar. Æfingar voru 4 – 5 sinnum í viku í 2 klukkustundir í senn. 14-15 ára krakkarnir voru 8 og 12-13 ára krakkarnir voru 15 svo samtals taldi hópurinn 23 krakka. Flestir kepptu krakkarnir á einhverjum bikarmótum ásamt UMÍ sem fram fór á Akureyri.


Undirritaður sá um skipulag æfinga, en um áramót var ákveðið að Kristinn Ingi Valsson myndi aðstoða við tvær æfingar í viku. Gríðarlega góð og þörf viðbót við þjálfarateymi elsta hópsins og vonandi næst að manna tvær heilar þjálfarastöður fyrir næstu vertíð þar sem allt stefnir í að hópurinn verði álíka stór á næstu skíðavertíð. Heilt yfir var ég mjög ánægður með æfingar og aðstæður í fjallinu í vetur, eins og áður hefur komið fram hafa snjóalög oft verið betri, og sönnuðu snjó byssurnar enn og aftur gildi sitt, sama má segja um gott starf svæðis-starfsmanna varðandi útsjónarsemi í snjósöfnun og “yfirbreiðslu” snjóa á þunnum svæðum. Skíðafélag Dalvíkur sendi 18 krakka til þátttöku á UMÍ 2024 sem fram fór á

Akureyri. Krakkarnir komu heim með 5 gullverðlaun, 2 silfurverðlaun og 2 bronsverðlaun Bikarmeistari SKÍ 12-13 ára drengir Barri BjörgvinssonFélagið átti marga flotta fulltrúa á 48. Andrésar andarleikunum sem haldnir voru, en 98 krakkar tóku þátt á vegum félagsins. Skemmst er frá því að segja að við komum heim með 12 titla þaðan, 8 silfur og 7 brons ásamt annara verðlauna í alpagreinum og brettum.

Bikarmeistari SKÍ 12-13 ára drengir Barri Björgvinsson (12ára)

Eftirtektarvert er árangur Barra Björgvinssonar sem vann öll nema eitt (lenti í öðru sæti) bikarmót SKÍ í vetur í flokki 12-13 ára drengja en Barri var á yngra ári í vetur. Samhliða því varð hann fjórfaldur Unglingameistari í sama flokki.

Félagið átti marga flotta fulltrúa á 48. Andrésar andarleikunum sem haldnir voru, en 98 krakkar tóku þátt á vegum félagsins.  Skemmst er frá því að segja að við komum heim með 12 titla þaðan, 8 silfur og 7 brons ásamt annara verðlauna í alpagreinum og brettum.




Fullorðinsflokkur:

Skíðafélagið átti þrjá fulltrúa í fullorðins flokki í ár. Er þetta þriðja árið árið í röð sem félagið á svo marga fulltrúa þar. En þau Esther Ösp Birkisdóttir og Torfi Jóhann Sveinsson eru á sínu þriðja ári í fullorðins flokki og Dagur Ýmir Sveinsson á sínu öðru ári. Esther býr og æfir í Geilo í Noregi en þeir Torfi og Dagur æfðu með SKA á Akureyri.  Þá var Torfi Jóhann valinn í B-landslið Skíðasambands Íslands og eru orðin nokkuð mörg ár síðan félagið hefur átt landsliðsmann. Torfi var því í ýmsum verkefnum því tengdu á vertíðinni samhliða verkefnum á vegum SKA þar sem þeir Dagur æfa saman.

Þá vann Dagur Ýmir sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum Ungmenna (YOG) fyrir Íslands hönd, en þrír þáttakendur frá Íslandi tóku þátt - mótið fór fram í Suður-Kóreu. Hópurinn stóð sig nokkuð vel á mótinu, Dagur endaði í 25.sæti í svigi en hlekktist á í stórsvigi.  Undirritaður fór einnig á þetta mót sem þjálfari og sjúkraþjálfari.

Skíðamót Íslands var var haldið í Bláfjöllum við mjög krefjandi aðstæður vegna veðurs. Þar kepptu þeir Torfi og Dagur en Esther keppti ekki á mótinu í ár.

Framundan eru spennandi tímar, nýtt aðstöðuhús í uppbyggingu endurnýjun á ýmsum búnaði og sífellt fjölgandi iðkendum, við þurfum að vera á tánum og halda áfram á sömu braut.

Að lokum vil ég þakka þjálfurum félagsins, stjórn, starfsmönnum skíðasvæðisins, foreldrafélaginu og foreldrum skíðabarna fyrir góðan vetur.

Sjáumst vonandi að ári.

Sveinn A. Torfason.

 

Tímabil 2024 Brettadeild Skíðafélags Dalvíkur
Aðalmarkmiðið mitt á þessu tímabili var að kenna nemendum góðan grunn í snjóbretti tækni. Þetta er grunnurinn fyrir alla snjóbrettaíhluti eins og boardercross, slopestyle, freeride og backcountry.
Fullorðinsflokkur: Skíðafélagið átti þrjá fulltrúa í fullorðins flokki í ár. Er þetta þriðja árið árið í röð sem félagið á svo marga fulltrúa þar. En þau Esther Ösp Birkisdóttir og Torfi Jóhann Sveinsson eru á sínu þriðja ári í fullorðins flokki og Dagur Ýmir Sveinsson á sínu öðru ári. Esther býr og æfir í Geilo í Noregi en þeir Torfi og Dagur æfðu með SKA á Akureyri. Þá var Torfi Jóhann valinn í B-landslið Skíðasambands Íslands og eru orðin nokkuð mörg ár síðan félagið hefur átt landsliðsmann. Torfi var því í ýmsum verkefnum því tengdu á vertíðinni samhliða verkefnum á vegum SKA þar sem þeir Dagur æfa saman. Þá vann Dagur Ýmir sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum Ungmenna (YOG) fyrir Íslands hönd, en þrír þáttakendur frá Íslandi tóku þátt - mótið fór fram í Suður-Kóreu. Hópurinn stóð sig nokkuð vel á mótinu, Dagur endaði í 25.sæti í svigi en hlekktist á í stórsvigi. Undirritaður fór einnig á þetta mót sem þjálfari og sjúkraþjálfari. Skíðamót Íslands var var haldið í Bláfjöllum við mjög krefjandi aðstæður vegna veðurs. Þar kepptu þeir Torfi og Dagur en Esther keppti ekki á mótinu í ár. Framundan eru spennandi tímar, nýtt aðstöðuhús í uppbyggingu endurnýjun á ýmsum búnaði og sífellt fjölgandi iðkendum, við þurfum að vera á tánum og halda áfram á sömu braut. Að lokum vil ég þakka stjórn, starfsmönnum skíðasvæðisins, foreldrafélaginu og foreldrum skíðabarna fyrir góðan vetur. Sjáumst vonandi að ári. Sveinn A.Torfason.
Ég reyndi líka að fjalla um alla þætti snjóbrettaiðkunnar. Við vorum að bretta í púðri. Við æfðum tækni í hörðu færi (icy conditions). Þegar það var hægt, græjuðum við smá park með slide og pöllum.
Auka:
- Lærdómur frá þremur frjálsíþrótta snjóbrettaþjálfurum frá CIOS Haarlem (íþróttaskóli) frá Hollandi,
- Kynning á Avalanche senditæki undir forystu leiðsögumannana frá Avalanche Science leiðsöguskólanum (Boise, Idaho).
- Kennsla hjá leiðbeinanda frá Spáni sem starfar hjá Icelandsnowsports (skíðaskóli í Hlíðarfjalli),
Ég vil líka þakka Viktori og Soffíu fyrir alla hjálpina og aðstoðina!!
Niðurstöður
Andrésar andar leikarnir 2024 Brettastíll (Slopestyle)
Strákar 9 ára Baltasar Ríó Ingason
Strákar 10 ára Einar Ísaksson Stúlkur 9-10 ára Adriana Maria Molina Strákar 11 ára Garpur Viktorsson Stúlkur 13-14 ára Lea Dalstein Ingimarsdóttir
Andrésar andar leikarnir 2024 Brettakross (boardercross)
Drengir 9 ára Jakob Eggert Brynjarsson Drengir 10 ára Einar Ísaksson
Strákar 11 ára Garpur Viktorsson Stúlkur 11-12 ára 1.sæti Lukka Viktorsdóttir 2.sæti Lovísa Lilja Friðjónsdóttir Drengir 12 ára 4.sæti David Pierzga Stelpur 13-14 ára 2.sæti Lea Dalstein Ingimarsdóttir 3.sæti Maya Alexandra Molina 4.sæti Àsdís Inga Gunnarsdóttir
Það kepptu fjórir krakkar. Allir í U13: Þessir fengu medalíur. Slopestyle U13: 1. Sæti Lukka Viktorsdóttir 3.sæti Lovísa Lilja Friðjónsdóttir Big air U13: 3.sæti Lukka Viktorsdóttir
Næsta tímabil
Fyrir næsta tímabil myndi ég vilja gefa nemendum meiri æfingu í Skipta brettun (switch riding) (nauðsynlegt til að stökkva 180) brekkubrögð (undirstöðu fyrir slopestyle) og slalom/boardercross.
Tveir tímar á viku duga ekki til að þjálfa nemendur fyrir keppni í viðbót við læra góða snjóbrettatækni. Nemendur sem mættu tvisvar í viku og voru einnig að æfa sig sjálfir þróuðust best.
Tillaga:
- Fleiri tímar. Til dæmis 1,5 klukkustund á kvöldi eða fleiri kvöld. Og aukalega æfing á laugardag eða sunnudag.
- Aukaþjálfun fyrir nemendur sem taka þátt í keppni.
- Innri starfsemi: hvernig á að sjá um snjóbrettið, Vax og brúnir, myndbands kvöld. (video kvöld)
- Innkaup á efni eins og; kassar, teinar (rails), töfrastafir (magic sticks). Fjármagn í það?
- Æfa stundum í Hlíðarfjalli.
- Aukanámskeið á laugardögum fyrir byrjendur, til að fá fleiri og nýja nemendur inn. (Ég hef fengið þá beiðni frá foreldrum nokkrum sinnum.) Það ætti að auðvelda þeim til að þeir passi inn í núverandi hóp.
Fyrir áframhald finnst mér það áskorun að setja upp þjálfunarnámskeið fyrir snjóbrettakennarar. Þessi þjálfun er möguleg frá 16 ára aldri. Þjálfunin ætti að fara fram á 3 til 4 dögum. Engin þjálfun er fyrir snjóbrettakennara á Íslandi ennþá. Árin 2021 og 2022 kenndi ég snjóbrettakennaranámskeið fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu í Oddsskarði.
Ég hafði mjög gaman af af því að þjálfa krakkana þetta árið. Takk fyrir þetta tækifæri! Mig langar að halda áfram á næsta ári til að þróa snjóbrettahópinn enn frekar. Ég vona að það verði hægt að framkvæma það með fleiri æfingatímum.
Á næsta tímabili hef ég meiri tíma til að koma og þjálfa á Dalvík.
Vincent Drost