03.07.2005
Á stjórnarfundi Skíðafélags Dalvíkur í dag var ákveðið að setja upp snjókerfi á skíðasvæðið á Dalvík í haust og hefja framleiðslu á snjó strax og aðstæður leyfa.
Áætlaður kostnaður eru rúmar 20 milljónir króna. Tekist hefur að fjármagna um 70% af kostnaðinum við verkið og leitað er leiða til þess að tryggja það fjármagn sem upp á vantar.
Með þessum aðgerðum er verið að bregðast við breyttu tíðarfari og minna framboði af náttúrulegum snjó.
Það er því ljóst að margra ára draumur er að verða að veruleika en hér voru snjóbyssur prófaðar í fyrsta sinn á Íslandi fyrir um 8 árum. Það var Jón Halldórsson starfsmaður félagsins og frumkvöðull skíðaíþróttarinnar á Dalvík sem flutti inn fyrstu snjóbyssurnar til Íslands sem nú eru í notkun á Heingilssvæðinu.
Það er því ljóst að tvö skíðasvæði í Eyjafirði verða búinn snjóframleiðsluvélum fyrir næstu skíðavertíð en í vetur var ákveðið að setja upp snjókerfi í Hlíðarfjall sem ætlar að opna 3 desember nk.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær opnað verður á Dalvík en ljóst er að við opnum við fyrsta tækifæri eins og síðustu ár en hvort það verður eingöngu á gervisnjó verður að koma í ljós!