Umræður skipta máli.

Umræður skipta máli.
 
Skíðafélag Dalvíkur hefur auglýst undanfarið gönguferð sem og fund þar sem farið er yfir helstu verkþætti landslagsmótunar sem ráðast á í, núna í enda mánaðar.
Búið er að tíunda fjölmörg rök fyrir framkvæmd þessari og hægt er að finna á heimasíðu Skíðafélags Dalvíkur og á Facebook síðu félagsins.
Þá minnum við í leiðinni á fundinn sem haldin verður í Bergi menningarhúsi þann 14. júlí klukkan 17:00.
 
Skíðafélag Dalvíkur hefur frá upphafi gert sér grein fyrir því að um rask er að ræða og því stigið mjög varlega til jarðar í undirbúningi þessum sem á sér rætur til ársins 2017. Þetta er búið að vera flókið og langt ferli að sækja um framkvæmdaleyfi og þurfti samþykki Umhverfisstofnunar, og þriggja ráða innan Dalvíkurbyggðar til að geta hafið framkvæmdir.
Þetta ferli allt verður sýnt á fundinum næsta fimmtudag. En til að gera langa sögu stutta þá hefur ekki komið fram ein mótbára úr stjórnkerfinu,
enda gerðar strangar kröfur um framkvæmdina og frágang sem tryggir að rask verður í algjöru lágmarki.
 
Það hefur heyrst að einhverjir telji þetta ekki verða til að bæta öryggi og einnig hafi skíðafólk áhyggjur af að það tapist skemmtilegt landslag og hólar. En það er verið að reyna að koma til móts við kröfur og óskir um bæði öryggi, góða aðstöðu fyrir byrjendur og skemmtilegt skíðasvæði fyrir alla. Þá hefur verið bent á að þessi ákvörðun hafi verið tekin án samráðs við almenning og hafi á einhvern hátt verið haldið frá sviðsljósinu. Það er alls órétt, þessi hugmynd hefur verið í umræðunni innan Skíðafélags Dalvíkur í mjög mörg ár.
Það hafa fleiri en ein og fleiri en tvær stjórnir félagsins komið að þessari umræðu og oft hefur þessi umræða átt sér stað á fundum og í spjalli innan félagsmanna því ætti þetta ekki að koma neinum á óvart að farið sé af stað í þessa framkvæmd.
 
Engin framkvæmd er yfir vafa höfð og ekkert er sjálfsagðara en að taka við andmælum en þó óskum við í Skíðafélagi Dalvíkur eftir málefnalegri og sanngjarnari umræðu þar
sem rýnt er til gagns frekar en að tala verkið niður án frekari
raka.
Fyrir hönd stjórnar Skíðafélags Dalvíkur
Hörður Finnbogason framkvæmdastjóri.