22.12.2004
Þessa frétt er að finna á heimasíðu Kaupfélags Eyfirðinga.
Miðvikudaginn 22. desember, verður tilkynnt um úthlutun 27 styrkja úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA og er heildarstyrkupphæðin 5.050.000 kr. Úthlutunin fer fram á Fiðlaranum og hefst kl. 16. Alls bárust 85 umsóknir um styrki úr sjóðnum að þessu sinni, þar af var ein umsókn dregin til baka. Úr Menningar- og viðurkenningasjóði er úthlutað tvisvar á ári.
Í A-flokki, sem tekur til málefna, einstaklinga, félaga eða hópa sem vinna að mikilvægum menningarmálum á félagssvæði KEA, eru afhentir sautján styrkir - hver styrkur er 150 þúsund krónur. Um getur verið að ræða málefni á sviðum félagsmála, minjavörslu, lista og íþrótta og hverra þeirra málefna sem flokkast geta sem menningarmál í víðtækri merkingu.
Skíðafélag Dalvíkur, Kristinn Ingi Valsson og Björgvin Björgvinsson voru meðal þeirra sem hlutu styrki.
Skíðafélag Dalvíkur - Verðveisla minjagripa Daníels Hilmarssonar
Dalvíkingurinn Daníel Hilmarsson, sem féll frá langt um aldur fram, var til fjölda ára fremsti alpagreinaskíðamaður Íslendinga. Daníel vann ötullega að framgangi skíðaíþróttarinnar og var ungum skíðamönnum góð fyrirmynd. Að frumkvæði Skíðafélags Dalvíkur hefur fjölmörgum verðlaunagripum Daníels verið komið saman á einn stað og þeir mynda nú safn sem heldur minningu þessa frábæra skíðamanns á lofti.
Kristinn Ingi Valsson, skíðamaður á Dalvík
Kristinnn Ingi hlýtur styrk til æfinga og keppni með A-landsliði Íslands í skíðaíþróttum, en þrátt fyrir ungan aldur er Kristinn kominn í fremstu röð hérlendra skíðamanna.
Björgvin Björgvinsson, skíðamaður úr Skíðafélagi Dalvíkur.
Björgvin hlýtur styrk til æfinga og keppni með skíðalandsliði Íslands.
Björgvin Björgvinsson hefur verið í hópi fremstu skíðamanna landsins um árabil og sinnt íþrótt sinni af elju og áhuga. Til að stunda íþrótt sína dvelur hann erlendis bróðurpart úr ári og keppir þar við bestu skíðamenn í heimi, bæði í heimsbikarnum í alpagreinum og á Evrópubikarmótum.