07.04.2006
Síðustu daga hefur lítið verið hægt að vera á skíðum á skíðasvæðinu á Dalvík. Hér hefur verið vonsku veður og mjög mikið snjóað. Lítið hefur verið hægt að aðhafast á svæðinu og hafa starfsmenn þess beðið átekta eftir að veðrið gengi niður. Í dag gekk veðrið loksins niður og var þá hafist handa við að vinna svæðið og segja starfsmenn svæðisins að mjög mikill snjór sé komin á svæðið og töluverðan tíma taki að gera brekkurnar klárar. Það er því ljóst að þeir sem leggja leið sína til Dalvíkur um páska fá frábærar aðstæður hjá okkur. Hér hafa aðstæður ekki verið betri í langan tíma og hvetjum við því landsmenn að skella sér á skíði í Böggvisstaðafjalli um páskana.
Snjókoman síðustu daga er afleiðing af miklu bænahaldi landsmótshaldara Skíðamóts Íslands, alla vega eru þeir sem telja að nægur snjór sé komin vissir um að svo sé og hafa sumir þeirra sett sig í samband við skíðamenn og beðið þá að hætta að biðja um snjó. Því hefur verið hafnað hingað til og verður ekki gert fyrr en í fyrsta lagi í lok mánaðarinns.