Ýmsar fréttir.

Það sem af er vetri hefur starfið hjá Skíðafélagi Dalvíkur gengið afar vel. Æfingar hófust hjá elsta hópnum seinnipartinn í nóvember en um mánaðarmótin nóv. - des. fóru æfingar af stað samkvæmt æfingatöflu hjá öllum aldurshópum. Aðalþjálfari félagsins er Björgvin Hjörleifsson, aðrir þjálfarar eru Snæþór Arnþórsson og Gunnlaugur Haraldsson, en hann sér um þjálfun 15 ára og eldri en þær æfingar eru í samstarfi við Skíðafélag Ólafsfjarðar eins og í flokki 13 - 14 ára. Opnunardagar eru orðnir 50 þrátt fyrir að snjólétt og hlýtt hafi verið frá miðjum desember og fram yfir áramót og síðustu daga. Snjóframleiðslukerfið hefur átt stóran þátt í því að svæðið hefur verið opið í þetta marga daga og ljóst að án þess værum við búin að vera í verulegum vandræðum það sem af er vetri. Okkur vantar þó meiri snjó á efra svæðið þannig að það verði gott. Lyftubrekkan í efri lyftunni hefur þrátt fyrir hlýindi verið opin síðustu daga. Eins og áður hefur komið fram þá hefur Skíðafélag Dalvíkur fest kaup á nýjum snjótroðara og var hann tekin í notkun í byrjun desember síðast liðinn.Troðarinn er frá framleiðandanum Kässbohrer og er af gerðinni Pisten Bully Kandahar 300. Troðarinn hefur reynst frábærlega það sem af er og ljóst er að um algera byltingu er að ræða fyrir skíðasvæðið hér á Dalvík. Þessi troðari leysir af hólmi troðara af gerðinni Leitner en hann kom hingað til Dalvíkur tveggja ára gamall og hefur verið í notkun síðan 1995 og reyndist hann okkur vel. Að sögn starfsmanna svæðisins er nýi troðarinn afkastamikill í brekkunum en líklega er mesti munurinn sá að á troðaranum er Multi Flex milla en slíkar millur eru á öllum nýjum troðurum í dag. Þá er á troðaranum áfastur búnaður til þess að gera gönguspor en hingað til hefur verið notaður laus spori sem hengdur var aftan í troðarann. Dalvíkurbyggð styrkti félagið til kaupanna en þann 29. desember 2006 var undirritaður nýr samningur á milli og Skíðafélags Dalvíkur og Dalvíkurbyggðar til næstu þriggja ára, 2007-2009. Um er að ræða styrkveitingu að upphæð kr. 34.050.000. Óskar Óskarsson, formaður Skíðafélags Dalvíkur og Svanfríður Inga Jónasdóttir bæjarstjóri undirrituðu samninginn. Þessi samningur sýnir vel hversu Dalvíkurbyggð stendur vel á bak við félagið og rekstur skíðasvæðisins í Böggvisstaðafjalli og gerir okkur kleift að halda úti óbreyttum rekstri næstu árin. Þessi samningur gerir okkur einnig kleift að sækja fram á við eins og við höfum gert síðustu ár. Á dögunum færð Lionsklúbburinn Sunna á Dalvík félaginu sjúkrabörur að gjöf. Þessar börur leysa af hólmi eldri tegund sem voru á svæðinu. Nýju börurnar eru þannig úr garði gerðar að tveir aðilar á skíðum renna sér með þær niður brekkurnar. Þá getur einn skíðamaður rennt sér með sjúkling ef á þarf að halda. Þessi gjöf er svæðinu mjög mikilvæg því slíkur búnaður einfaldar mjög flutning á fólki niður skíðabrekkurnar ef á þarf að halda. Skíðafélag Dalvíkur færir klúbbnum bestu þakkir fyrir. Á myndasíðunni eru myndir sem voru teknar við afhendinguna. Fleiri nýir hlutir hafa bæst í tækjakost félagsins því um daginn fengum við Skidoo Summit vélsleða afhentan en samið var um kaup honum á fyrir nokkru af Björgunnarsveitinni á Dalvík.